Ragnhildur Geirsdóttir, fyrrv. forstjóri FL Group, segir að sér hafi ekki verið greitt fyrir að tjá sig ekki um málefni félagsins eftir að hún lét af störfum. Hún hafi sjálf, við starfslok sín hjá félaginu, ákveðið að ræða ekki um málefni FL Group við fölmiðla.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Ragnhildi sem hún sendi fjölmiðlum í dag. Í yfirlýsingunni fer hún jafnframt yfir ástæður þess að hún lét af störfum hjá FL Group í október 2005.

Ragnhildur segir fyrst og fremst tvær ástæður fyrir því að hún hafi ekki tjáð sig fyrr um málefni félagsins. Í fyrsta lagi hafi ákvörðun hennar um að láta af störfum verið persónuleg og byggðist á reynslu hennar af samstarfi við stjórnarformann félagsins. Hún hafi talið umræðu um mörg þau málefni ekki eiga heima í fjölmiðlum og hafði jafnframt takmarkaðan áhuga á að lenda í orðaskaki við hlutaðeigandi á opinberum vettvangi, eins og hún orðar það í yfirlýsingunni.

Í öðru lagi hafi í ráðningarsamning hennar verið hefðbundin ákvæði um þagnarskyldu um málefni félagsins og þau hafi hún virt, bæði á meðan hún starfaði hjá FL Group og eftir að hún sagði upp störfum.

„Starfslok mín hjá FL Group í október 2005 eru orðin opinbert umfjöllunarefni í kjölfar þess að rannsóknarnefnd Alþingis birti skýrslu sína um aðdraganda bankahrunsins og að æru minni er vegið á þann hátt að það hlýtur að kalla á viðbrögð af minni hálfu,“ segir Ragnheiður í yfirlýsingunni.

„Gefið er í skyn, og sum staðar jafnvel beinlínis fullyrt, að ég hafi á sínum tíma fengið greitt fyrir að þegja, þ. e. a. s. að tjá mig ekki um ástæður brotthvarfs míns frá FL Group. Með slíkri umfjöllun er vegið að æru minni og ég tel því nauðsynlegt að gera grein fyrir staðreyndum málsins. Dylgjur og ásakanir, sem komið hafa fram, eiga sér ekki stoð í veruleikanum og vísa ég þeim algjörlega á bug.“

Þá segir Ragnhildur jafnframt:

„Staðreyndir málsins eru þær að enginn starfslokasamningur var gerður við mig þegar ég lét af störfum hjá félaginu. Ég fékk hins vegar greiðslur, eftir að ég lét af störfum, í samræmi við ákvæði ráðningarsamnings þar sem kveðið var á um að ég fengi greidd laun á tólf mánaða uppsagnarfresti og síðan greiðslur vegna ráðgjafar í þágu félagsins í 3 ár. Greiðslur vegna starfslokanna voru sem sagt í einu og öllu í samræmi við ráðningarsamning minn við FL Group.“

Ragnhildur segir að ekki hafi verið gerður sérstakur samningur við sig um að hún myndi ekki tjá sig um málefni félagsins eða að hún fengi sérstakar greiðslur umfram það sem hún átti rétt á samkvæmt ráðningarsamningi sínum.

„Ástæða þess að ég ákvað að láta af störfum sem forstjóri félagsins byggðist fyrst og fremst á því að ég taldi mig ekki eiga samleið með stjórnarformanni og stjórn félagsins, sem voru fulltrúar stærstu eigenda þess,“ segir Ragnhildur.