Um það leyti sem Ragnhildur Geirsdóttir tók formlega við starfi forstjóra FL Group fékk hún vitneskju um að Hannes Smárason, þá stjórnarformaður FL Group, hefði í apríl sama ár látið millifæra tæplega 3 milljarða króna af reikningum félagsins til Kaupþings í Lúxemborg.

Engar skýringar, lánaskjöl eða önnur gögn voru til um málið og millifærslan var án vitneskju annarra stjórnarmanna félagsins. Hannes gaf þá skýringu að fjármunirnir væru í vörslu Kaupþings í Lúxemborg og ættu að vera þar til reiðu ef taka þyrfti skyndiákvarðanir um fjárfestingar.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Ragnhildi sem hún sendi fjölmiðlum í dag. Í yfirlýsingunni fer hún jafnframt yfir ástæður þess að hún lét af störfum hjá FL Group í október 2005.

Ragnhildur segir að Kaupþing í Lúxemborg hafi ítrekað neitað að gefa sér eða öðrum stjórnendum FL Group upplýsingar um peningana og hafi borið við bankaleynd.

„Í júní gerði ég stjórnarformanni félagsins grein fyrir því að ekki væri unnt að una við óbreytta stöðu málsins,“ segir Ragnhildur í yfirlýsingunni.

„Annað hvort yrði að upplýsa hvar fjármunirnir væru niðurkomnir eða að þeir skiluðu sér aftur til FL Group með vöxtum. Stjórnarformanninum var jafnframt tjáð að hvorki væri hægt að ganga frá sex mánaða uppgjöri félagsins né láta endurskoðendur fá reikninga þess ef upplýsingarnar lægju ekki fyrir. Það var þó ekki fyrr en ég talaði beint við forstjóra Kaupþings banka og greindi honum frá málavöxtum að peningarnir skiluðu sér loksins inn á reikning FL Group ásamt vöxtum, fyrir lok júní.“

Ófullnægjandi skýring á „hvarfi“ peninganna

Ragnhildur segir að Hannes hafi aldrei gefið viðunandi skýringu á því að hennar mati hvar peningarnir hafi verið niðurkomnir á meðan þeir voru ekki í umsjá FL Group.

Hins vegar hafi á þessum tíma borist útprentun úr Excel skjali frá Kaupþingi í Lúxemborg þar sem fram komu upplýsingar sem mátti skilja sem svo að peningarnir hefðu á einhverjum tímapunkti, í einhverjum tilgangi, verið millifærðir á Fons.

Til upplýsinga var Fons þá í eigu Pálma Haraldssonar en félagið er nú í gjaldþrotamerðferð.

„Staðfestingu á því hef ég hins vegar aldrei fengið, hvorki hjá stjórnarformanninum, bankanum né öðrum aðilum,“ segir Ragnhildur.

„Þar sem ég taldi mig ekki hafa fengið fullnægjandi skýringar á millifærslumálinu ákvað ég að ræða það við hvern og einn stjórnarmann FL Group, án vitneskju stjórnarformannsins. Ég taldi að stjórn félagsins væri réttur vettvangur til umfjöllunar um málið og vonaðist auðvitað eftir því að stjórnin ræddi það og gripi til viðeigandi ráðstafana, teldi hún ástæðu til.“

Skömmu eftir að millifærslumálið kom upp sögðu allir þessir stjórnarmenn sig hins vegar úr stjórninni. Einn stjórnarmannanna gerði grein fyrir afsögn sinni á hluthafafundi FL Group eins og kom fram í fjölmiðlum þá. Á þessum tíma segist Ragnhildur hafa hugleitt hvort ástæða væri til þess að aðhafast eitthvað frekar varðandi þessa millifærslu.

„Í ljósi þess að ég hafði rætt málið við stjórnarmenn í félaginu, peningarnir höfðu skilað sér með eðlilegri ávöxtun og að ekkert óyggjandi lá fyrir um að peningarnir hefðu verið notaðir á óeðlilegan hátt, mat ég það svo að ekki væri grundvöllur fyrir mig að aðhafast frekar,“ segir Ragnhildur.