Stjórn Flugleiða hf. hefur ákveðið að ráða Ragnhildi Geirsdóttur, framkvæmdastjóra hjá Icelandair, í starf forstjóra Flugleiða hf.. Þá var Jón Karl Ólafsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, ráðinn forstjóri Icelandair. Þau munu starfa með Sigurði Helgasyni fráfarandi forstjóra félaganna og taka formlega við störfum þann 1. júní næstkomandi. Hannes Smárason mun áfram verða starfandi stjórnarformaður Flugleiða hf.

Jafnframt verða gerðar ákveðnar breytingar á skipulagi Flugleiða og hlutverk móðurfélagsins í heildarstefnumótun fyrir öll 13 fyrirtækin innan samstæðunnar aukið. Stefnt er að því að móðurfélagið taki í auknum mæli við því hlutverki að samhæfa aðgerðir einstakra fyrirtækja og veita þeim aukna þjónustu og stuðning. Unnið verður að þeim skipulagsbreytingum á næstu vikum og þær kynntar á aðalfundi félagsins þann 10. mars næstkomandi.

Ragnhildur hóf störf hjá Flugleiðum árið 1999. Árið 2002 var hún skipuð forstöðumaður rekstrarstýringardeildar og framkvæmdastjóri rekstrarstýringarsviðs Icelandair í janúar 2003. Hún útskrifaðist sem vélaverkfræðingur frá Háskóla Íslands árið 1995. Hún útskrifaðist með M.S. í iðnaðarverkfræði frá University of Wisconsin-Madison 1996 og með M.S. í framleiðslustjórnun frá sama skóla árið 1998. Ragnhildur er 33 ára. Ragnhildur er í sambúð með Ágústi Þorbjörnssyni, hagverkfræðingi og rekstrarráðgjafa.

Jón Karl hóf störf hjá Flugleiðum árið 1984. Hann starfaði á fjármálasviði félagsins og var hann m.a. yfirmaður hagdeildar og fjárreiðudeildar og síðan yfirmaður leiðarstjórnunar. Hann var síðan svæðisstjóri Flugleiða á meginlandi Evrópu um fimm ára skeið, með aðsetur í Frankfurt í Þýskalandi. Jón Karl hefur verið framkvæmdarstjóri Flugfélags Íslands síðan í byrjun árs 1999. Jón Karl hefur verið formaður SAF, Samtaka ferðaþjónustunnar í tvö ár og er einnig formaður stjórnar Verslunarráðs Íslands. Jón Karl lauk prófi frá Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands árið 1984. Hann er 46 ára, kvæntur Valfríði Möller, hjúkrunarfræðingi. Börn þeirra eru Guðrún, Anna Sigrún, Edda Björg og Jón Valur.

Hannes Smárason, stjórnarformaður Flugleiða, segir það mikinn styrk fyrir félagið að fá þau til starfa."Ragnhildur hefur unnið náið með forstjóra á undanförnum árum og hefur borið ábyrgð á mikilvægum þáttum rekstrarins, leiðakerfi Icelandair og starfsmannamálum. Hennar hlutverk hefur meðal annars verið að leiða þær breytingar sem gerðar hafa verið á leiðakerfi Icelandair á undanförnum árum og hafa gjörbreytt afkomu félagsins".

"Jón Karl hefur sinnt fjölbreyttum stjórnunarstöfum innan félagsins, bæði í fjármálum og markaðsmálum og hefur náð mjög góðum árangri með Flugfélag Íslands á undanförnum árum. Hann er góður leiðtogi og rétti maðurinn til að leiða Icelandair til frekari landvinninga og árangurs. Ég er því mjög ánægður með að þau skuli vera reiðubúin að taka að sér þessi vandasömu störf og ég hlakka til samstarfsins við þau", segir Hannes.

Flugleiðir hf. er eignarhaldsfélag sem á 13 dótturfélög í flug, - ferða - og fjármálaþjónustu. Icelandair er langstærst þessara fyrirtækja með um helming veltu samstæðunnar.