Ragnhildur Geirsdóttir, fyrrv. forstjóri FL Group, segir í yfirlýsingu að sér hafi ekki þótt skynsamlegt fyrir FL Group að kaupa danska flugfélagið Sterling af fjárfestingafélaginu Fons (sem þá var í eigu Pálma Haraldssonar).

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Ragnhildi sem hún sendi fjölmiðlum í dag þar sem hún fer yfir ástæður þess að hún lét af störfum hjá FL Group í október 2005.

Ragnhildur segir að á haustmánuðum 2005 hefði Hannes Smárason, þá stjórnarformaður FL Group,  lýst yfir miklum áhuga á að kaupa Sterling af Fons en Fons hafði keypt Sterling í mars 2005 fyrir jafnvirði 4 milljarða króna, að því er fram kom í fréttum. Í lok júní hafði Fons einnig keypt flugfélagið Maersk. Kaupverðið var ekki gert opinbert en gefið í skyn að félagið hefði fengist fyrir lítið. Félögin tvö voru sameinuð undir nafninu Sterling síðar á árinu 2005.

„Ég þekkti nokkuð til Sterling og Maersk eftir að hafa starfað hjá Flugleiðum/FL Group í 6 ár og var eindregið þeirrar skoðunar að þau ættu bæði í verulegum rekstrarvanda og væru lítils virði. Ljóst var að margt og mikið þyrfti að gerast til þess að þau yrðu rekin með viðunandi hagnaði,“ segir Ragnhildur.

„Mér þótti því ekki skynsamlegt fyrir FL Group að kaupa Sterling, allra síst þegar horft var til þess að kominn var verðmiði á félagið upp á tæpa 15 milljarða króna, sem var að mínu mati óskiljanleg verðhækkun á þeim fáu mánuðum sem Sterling var í eigu Fons.“

Ragnhildur segir að það hafi ekki farið á milli mála að Hannes hefði viljað kaupa Sterling og aðrir stjórnarmenn í FL Group hefðu sömu skoðunar.

„Kaupferlið horfði við mér sem formleg afgreiðsla á ákvörðun sem þegar var búið að taka. Áður en gengið var frá samningnum um kaupin á Sterling ákvað ég að láta af störfum,“ segir Ragnhildur.

Var boðið að verða forstjóri Icelandair Group

„Þegar komið var fram á haust 2005 varð mér ljóst að samstarfið við stjórnarformann og stjórn FL Group yrði erfitt og að ég átti ekki samleið með þeim. Fleira kom til, ekki síst framkoma og vinnubrögð stjórnarformannsins. Ljóst mátti vera að við gætum ekki unnið saman til frambúðar.“

Þá segir Ragnhildur að í október 2005 hafi einnig legið fyrir að gerðar yrðu skipulagsbreytingar hjá FL Group og í þeim fólst að starfandi stjórnarformaður yrði forstjóri. Henni hafi verið boðið að gerast forstjóri þess félags sem síðar tók upp nafnið Icelandair Group. Í ljósi þess sem á undan var gengið hugnaðist henni það ekki.

„Um miðjan október 2005 tilkynnti ég stjórnarformanninum að ég vildi láta af störfum og samkomulag varð um það. Ég lét af störfum 19. október 2005. Starfslokin voru að fullu í samræmi við ráðningarsamninginn og málið var ekki rætt frekar. Ákvörðun mín um að hætta hjá FL Group byggðist þannig á því að ég taldi mig ekki eiga samleið með stjórnarformanni og stjórn félagsins,“ segir Ragnhildur.