Ragnhildur Jónsdóttir, hagfræðingur og varabæjarfulltrúi, sækir eftir umboði til að leiða lista Sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi í sveitarstjórnarkosningunum í vor í prófkjöri sem fer fram 26. febrúar. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Ragnhildur hefur unnið við rannsóknir og hagspár, efnahagsgreiningu og eignastýringu, kennslu, skrif og heilsueflingu og setið í stjórnum fyrirtækja og stofnana. Ragnhildur hefur verið varabæjarfulltrúi, sinnt formennsku í skipulags- og umferðarnefnd, setið í skólanefnd og svæðisskipulagsnefnd Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Áður sat hún í foreldraráði Leikskóla Seltjarnarness 2015-2017.

Hún leggur áherslu á lágar álögur og framúrskarandi þjónustu, að því er kemur fram í tilkynningu. Hún segir að gæta þurfi að sjálfbærum rekstri bæjarins og að reksturinn ráði við sveiflur vegna utanaðkomandi áfalla. Hún bætir við að skólarnir á Seltjarnarnesi eigi að vera fyrsta flokks og að bærinn ætti að nýta sér tæknina bæði til sparnaðar og bættrar þjónustu við íbúa. Hún boðar jafnframt aukið gagnsæi í ákvarðanatöku og að unnið sé að bættri lýðheilsu, líðan og lífsgæðum bæjarbúa á öllum aldri.

Ragnhildur er gift Tryggva Þorgeirssyni, lækni og forstjóra heilbrigðistæknifyrirtækisins Sidekick Health. Þau eiga þrjú börn á grunnskólaaldri.

Ragnhildur er ein fjögurra sem hafa gefið kost á sér í oddvitasætið á lista Sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi, en Sjálfstæðisflokkurinn hefur haldið bæjarstjórastólnum á Seltjarnarnesi frá stofnun bæjarfélagsins. Auk Ragnhildar hafa þau Magnús Örn Guðmundsson, Svana Helen Björnsdóttir og Þór Sigurgeirsson boðið sig fram.