Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, sagði í ræðu sem hann hélt í gær á fundi heilbrigðisráðherra Norðurlandanna í Stokkhólmi í gær að hann legði mikla áherslu á að Norðurlöndin færu ítarlega yfir möguleikana á sameiginlegum lyfjamarkaði: „Sameiginlegur norrænn lyfjamarkaður er spennandi verkefni, en ljóst er að Ísland hefur hér hvað mestra hagsmuna að gæta enda minnsta markaðssvæðið, þar eru fæst lyf á markaði, sérstaklega samheitalyf,” sagði Guðlaugur. „Fjölmargir þættir getað stuðlað að opnun lyfjamarkaðarins, til dæmis sameiginleg markaðsleyfi, póstverslun, sameiginleg útboð, og sveigjanlegri reglur um texta fylgiseðla svo eitthvað sé nefnt. Um þessa þætti ættum við að geta náð samstöðu um á norrænum vettvangi.”

Norrænn starfshópur undir formennsku Íslands, sem falið er að kanna forsendum fyrir sameiginlegum norrænum lyfjamarkaði og samvinnu um útgáfu markaðsleyfa, tók til starfa fyrr í þessum mánuði og greindi ráðherra frá því að gert væri ráð fyrir að hópurinn skilaði lokaskýrslu fyrir sumarbyrjun.

Sameiginleg bóluefnaframleiðsla var efst á formlegri dagskrá norrænu heilbrigðisráðherranna. Hyggjast þeir kanna möguleika á samstarfi um slíka framleiðslu, en lögðu jafnframt áherslu á áframhaldandi náið samstarf varðandi viðbúnað vegna alheims inflúensufaraldurs.