Þeir sem ferðast til útlanda geta frá og með deginum í dag haft meðferðis þegar þeir koma aftur til landsins varning að verðmæti allt að 65 þúsund krónur í stað 46 þúsund áður.

Þó má hver hlutur ekki kosta meira en 32.500. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu.

Þar segir að Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra hafi ákveðið að hækka þessar tollfrjálsu heimildir ferðamanna við komu þeirra til Íslands. Þetta er ríflega fjörutíu prósent hækkun frá fyrri reglugerð en sex ár eru síðan þessari upphæð var síðast breytt.

Ferðamönnum verður jafnframt heimilt að hafa meðferðis tollfrjálst 3 lítra af léttvíni í stað 2,25 lítra nú. Þá mega ferðamenn sem koma hingað til lands flytja með sér matvæli eða sælgæti að verðmæti 18.500 krónur í stað 13 þúsunda.