Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, hvetur stjórnendur íslenskra fyrirtækja til að „vakna af Þyrnirósarsvefni og ganga inn í nútímann” hvað varðar hlutfall kvenna í stjórnunarstöðum og spyr jafnframt „eða verður nauðsynlegt að setja þá lög eins og í Noregi?”

Erindi ráðherra um þessi mál var flutt af aðstoðarmanni hennar á nýliðnu málþingi Kvenréttindafélags Íslands, í tilefni af 101 árs afmæli þess. Í erindi ráðherra sagði m.a. að rannsóknir bentu til að því meira jafnrétti því betur standi þjóðfélögin að vígi í harðri samkeppni. „Því meira jafnrétti innan fyrirtækja og stofnana því betur eru þau rekin og því meiri hagnaði skila þau,” segir Jóhanna. „Ný finnsk rannsókn hefur leitt í ljós að fyrirtæki sem stjórnað er af konum skila 10% meiri hagnaði en fyrirtæki sem stjórnað er af körlum. Ætla íslenskir stjórnendur að vakna af Þyrnirósarsvefni og ganga inn í nútímann eða verður nauðsynlegt að setja á þá lög eins og í Noregi?”

Hún benti á að íslensk fyrirtæki sem reka útibú í Noregi hafi uppfyllt lagaskyldur þar í landi og eru með 40% stjórnunarsæta skipuð konum. „Af hverju ganga þau ekki á undan með góðu fordæmi og gera slíkt hið sama hér á landi? Af hverju taka fyrirtækin ekki á launamisréttinu innan sinna veggja þegar ljóst má vera að það bætir vinnuandann og reksturinn auk þess að vera réttlátt og sanngjarnt?”