Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, er einn fjölmargra sem tapar stofnfjáreign sinni í endurskipulagningunni á Byr sparisjóði. Árni Páll á rúmlega 5,6 milljónir stofnfjárhluti að nafnvirði í sjóðnum, eins og hann hefur upplýst með sérstakri hagsmunaskráningu þingmanna á vefsvæði Alþingis. Árni Páll segist gera ráð fyrir því að það sé tapað fé sem hann hafði sett í sjóðinn. "Það hvíla lán á þessu að hluta til. Ég eyddi sparifénu mínu í að kaupa stofnfjárbréf og svo þegar kom að stofnfjáraukningu í sjóðnum þá tók ég lán og jók eign mína í sjóðnum. Ég geri ráð fyrir að þetta sé tapað fé, eins og hjá svo mörgum öðrum." Árni Páll sagðist ekki muna nákvæmlega hversu há lánin eru sem hann tók, en þau hlaupa á milljónum og eru að hluta í erlendri mynt. Sagði hann upphæðir ekki hlaupa á tugum milljóna.

Sjá frekari umfjöllun um endurskipulagningu á Byr sparisjóði í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag.