Kristján Möller, samgönguráðherra, segir að nauðsynlegt kunni að verða að leitast við að tryggja jöfnun aðstöðu með því að fara fram á takmarkaðar undanþágur frá þátttöku í kerfi ESB um losun gróðurhúsalofttegunda að því er lýtur að flugi.

Fáist ekki undanþágur megi óska eftir rýmri losunarheimildum fyrir Ísland umfram aðra. Verði að miða við að framlag Íslendinga sé sanngjarnt á við aðrar þjóðir Evrópu en einnig í samræmi við sérstakar aðstæður í flugstarfsemi á Íslandi.

Vilji hann freista þess að „fylgja eftir sanngjörnum hagsmunum Íslendinga og íslensks flugrekstrar í málinu.”

Gæti raskað samkeppnisstöðu

„Sérstaða Íslands í þessu máli felst einkum í því að ekki er öðrum samgöngugreinum til að dreifa fyrir almennin og fyrirtæki í samskiptum út fyrir landsteinana. Engar forsendur eru fyrir almenning að skipta yfir á aðrar vistvænni samgöngugreinar, svo sem járnbrautir, hvorki á skemmri né lengri leiðum eins og ein forsenda tilskipunarinnar er. Þá vegur flugrekstur margfalt þyngra í íslensku efnahagslífi en annarra Evrópuríkja sem og Bandaríkjanna,” sagði Kristján. Hann kvað líklegt og nánast öruggt að þátttaka flugs í viðskiptakerfinu með losunarheimildir á gróðurhúsalofttegundum gæti raskað samkeppnisstöðu Íslands og þrengt að rekstri íslenskra flugfélaga.

Gera megi ráð fyrir að fargjöld muni hækka bæði í innanlands- og millilandaflugi, nokkur samdráttur verði í fjölda farþega og ferðaþjónustu, og samdráttur geti orðið í hagkerfinu.

„Á ferð minni í Brussel í apríl sl. hitti ég samgöngustjóra ESB og ræddi við hann m.a. um þessi mál og kynnti sjónarmið Íslands,” sagði Kristján.

Hann ætlaði nú, þegar skýrsla stýrihópsins liggur fyrir, beita sér fyrir því að hún verði kynnt á viðeigandi stöðum innan ESB.