Stærstan hluta af tapi Íbúðalánasjóðs í síðasta ársuppgjöri má rekja til viðskipta sjóðsins með skuldatryggingar Kaupþings seint á árinu 2007. Á þeim viðskiptum einum tapaði sjóðurinn sex milljörðum króna en í stefndi að hann myndi tapa 9,2 milljörðum.

Starfsmönnum Straums-Burðaráss tókst hins vegar að lágmarka skaðann við uppgjör bréfanna. Létu Straumsmenn betri endurheimtur skila sér beint til viðskiptavinarins, í þessu tilviki Íbúðalánasjóðs. Með því að gefa það eftir tóku stjórnendur Íbúðalánasjóðs þá ákvörðun að leggja peninga á innlánsreikning Straums. Það var á þeim tíma sem Straum vantaði lausafé við þrengingar eftir fall bankanna.

Þegar Fjármálaeftirlitið setti skilanefnd yfir Straum átti Íbúðalánasjóður 22 milljarða króna á innlánsreikningi í bankanum og var stærsti innlánseigandinn. Stærsti hluti þeirrar upphæðar var flokkaður sem forgangskrafa og fékkst að fullu greiddur. Deilur eru um 2,1 milljarð króna þar og 3,2 milljarða í SPRON sem slitastjórnir flokka sem almennar kröfur en ekki forgangskröfur. Miðað við árshlutareikning Íbúðalánasjóðs getur tapið vegna þessa orðið 3,5 milljarðar til viðbótar.

Fengu greitt fyrir áhættu

Nokkrir viðmælendur Viðskiptablaðsins segja viðskipti Íbúðalánasjóðs, sem tengjast skuldatryggingu Kaupþings, vægast sagt á gráu svæði miðað við fyrirliggjandi fjárfestingarstefnu. Íbúðalánasjóður átti tíu milljarða króna skuldabréf á Straum. Strarfsmenn sjóðsins tóku þá ákvörðun að tryggja sér viðbótarávöxtun á þá peninga með því að kaupa einnig áhættu á Kaupþing. Sneru þeir sér til Straums í október 2007, samkvæmt upplýsingum úr stjórkerfinu, til að útbúa samning þess efnis. Það átti að tryggja 3-6% viðbótarávöxtun á þá ávöxtun sem þeir fengu á skuldabréf Straums.

Töpuðu 92% af höfuðstól

Áhætta Íbúðalánasjóðs í þessum viðskiptum var rúmir 10 milljarðar króna. Þegar bankakerfið féll og greiðslufall varð hjá Kaupþingi, féll skuldabréfið á Straum, sem Íbúðalánasjóður átti, á gjalddaga. Endurheimtur eru í samræmi við endurheimtur á skuldatryggingum Kaupþings. Þá var ljóst að tap Íbúðalánasjóðs yrði 9,2 milljarðar en með reddingum var hægt að minnka það í 6 milljarða.

Áður en til þess uppgjörs kom fór málið inn á borð Guðmundar Bjarnasonar framkvæmdastjóra. Það var talið nauðsynlegt því hér var um gríðarlegt tap að ræða og ákvörðun um uppgjör þess þurfti að vera tekin á efstu stöðum. Ef málið kæmist í hámæli væri ekki hægt að hengja það á undirmann í Íbúðalánasjóði eða starfsmenn Straums.

Reglur ekki brotnar

„Já, þessi viðskipti voru skoðuð strax og farið yfir þetta allt saman. Við létum utanaðkomandi fara yfir þetta fyrir okkur og svo fór þetta að sjálfsögðu fyrir ráðherra strax eftir fallið og við sáum í hvað stefndi. Það fór einnig fyrir Fjármálaeftirlitið, sem er okkar eftirlitsaðili, og Ríkisendurskoðun. Í kjölfar þess settust menn yfir þessi viðskipti. Niðurstaðan varð sú að áhættustýringarstefna, sem samþykkt var og við höfum farið eftir, hafði ekki verið brotin, sagði Guðmundur.“