Kostnaður vegna tveggja ferða Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, á Ólympíuleikana í Kína ásamt ráðuneytisstjóra og mökum nemur rúmum 5 milljónum króna samtals.

Ráðherra fór tvívegis út ásamt maka sínum, Kristjáni Arasyni, en ráðuneytisstjóri var aðeins í fyrri skiptið með maka í för. Kostnaðurinn fellur á íslenska ríkið að óbreyttu.

Sjö flugmiðar á rúmar 3,6 milljónir

Eftirfarandi liggur fyrir um ferðirnar og kostnað vegna þeirra samkvæmt upplýsingum frá ráðuneyti.

1. Fyrri ferð ráðherra var farin þann 5. ágúst og komið var aftur til Íslands þann 14. Í för með ráðherra voru maki hennar, og ráðuneytisstjóri ásamt maka hans.

Flogið var um Kaupmannahöfn með Flugleiðum og til Kína með SAS. Fargjald á mann var kr. 446.320. Samanlagður flugkostnaður í þessari ferð er því 1.785.280 krónur, þ.e. tæplega 1,8 milljón króna.

2. Síðari ferð ráðherra var farin laugardaginn 23. ágúst og komið aftur til Íslands þann 25. sama mánaðar. Í för með ráðherra voru maki hennar og ráðuneytisstjóri.

Flogið var um Helsinki með Flugleiðum og til Kína með Finnair. Fargjald ráðherra var kr. 609.300.- Fargjald Kristjáns Arasonar var kr. 656.790.- Fargjald ráðuneytisstjóra var kr. 590.700. Samanlagður flugkostnaður í þessari ferð er því 1.856.790 krónur, þ.e. rúmlega 1,8 milljón króna.

Greiðsla dagpeninga til ráðherra og ráðuneytisstjóra eru í samræmi við reglur um greiðslu dagpeninga til ríkisstarfsmanna á ferðalögum erlendis. Miðað við þær reglur fengu ráðherra og ráðuneytisstjóri samanlagt um 514 þúsund krónur í dagpeninga í ferðunum tveimur.

Gisting fyrir rúmar 906 þúsund

Ekki liggur fyrir hver endanlegur gistikostnaður verður, en Íþróttasamband Íslands annaðist milligöngu um bókun gistingar og mun gera ráðuneytinu reikning fyrir henni.

Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, sagði í samtali við Viðskiptablaðið að endanlegar tölur lægju ekki fyrir, en samkvæmt bráðabirgðatölum næmi samanlagður kostnaður við gistingu ráðherra, ráðuneytisstjóra og maka í báðum ferðum sem nemur 906.200 krónum.

Saman reiknað er því heildarkostnaðurinn við ferðirnar tvær 4.548.270 krónur án dagpeninga, en 5.062.270 krónur með dagpeningum.