Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa skilað til forsætisráðuneytisins upplýsingum um fjárhagslega hagsmuni sína og trúnaðarstörf sem þeir gegna en það er í samræmi við reglur forsætisnefndar Alþingis um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum alþingismanna og trúnaðarstörfum utan þings frá um miðjan mars á þessu ári.

Upplýsingarnar hafa nú verið birtar á vef forsætisráðuneytisins en athygli vekur að ekkert er gefið upp um skuldarstöðu ráðherra þó farið sé fram á að þeir upplýsi ef þeir hafa notið sérstakra ívilnana við greiðslur skulda. Rétt er þó að taka fram að ráðherrar ríkisstjórnarinnar lögðu upplýsingarnar fram samkvæmt skilmálum forsætisnefndar Alþingis.

Á vef forsætisráðuneytisins kemur fram að með ákvörðun ríkisstjórnar frá 17. mars sl. var ákveðið að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands skyldu gera almenningi grein fyrir fyrrgreindum hagsmunum sínum.

Þegar gögnin eru skoðuð kemur í ljós að aðeins einn ráðherra, Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra tekur að sér launað starf utan ráðherrastarfsins en hún fær greitt fyrir stöku námskeið eða fyrirlestra um bókmenntir.

Sjá nánar á vef forsætisráðuneytisins.