Nýstofnuð fyrirtæki á Norðurlöndunum standa sig verr ef miðað er við Bandaríkin. Mikið er af nýstofnuðuð sprotafyrirtækjum en fjöldi þeirra kemur ekki fram í vaxandi hagvexti. þetta segir í frétt á vef Norden , samstarfsverkefni Norðurlandanna.

Í fréttinni segir að norrænir ráðherrar hafi náð samkomulagi um að hrinda í framkvæmd átaksverkefni með það að markmiði að auka vöxt norræna sprotafyrirtækja, ekki síst í samkeppni á alþjóðamarkaði. Fundur norræna atvinnumálaráðherra var haldinn í Kaupmannahöfn í dag.

Þriggja ára stefna

Stofnuð verður norræn þekkingarmiðstöð til þess að sameina og efla aðgerðir á sviði frumkvöðlastarfsemi. Segir að miðstöðin sé eitt af mörgum leiðarljóssverkefnum í nýrri þriggja ára stefnu sem ber heitið "Norræn samstarfsáætlun um nýsköpunar- og atvinnustefnu 2011-2013".

„Auk norrænnar þekkingarmiðstöðvar er norrænn nýsköpunarvettvangur liður í áætluninni, norræn stefna um samfélagsábyrgð fyrirtækja, sameiginleg markaðssetning norrænna nýsköpunarfyrirtækja og skapandi iðnaðar, nýsköpun í gegnum opinber innkaup og eftirlit með áherslu á heilbrigðisgeirann.

Að auki er viðamikil áætlun um vistvæna byggingastarfsemi.

Norrænu atvinnumálaráðherrarnir vilja draga úr orkuneyslu í húsum og jafnframt skapa betri aðstæður fyrir útflutning norrænna orkulausna. Til lengri tíma litið er markmiðið að draga til muna úr koltvísýringslosun ríkjanna. Um þessar mundir er orkunotkun í húsum um 40% af heildarorkuneyslu iðnríkjanna.“