Verið er að skoða möguleika á að Hitaveita Suðurnesja hf. og Reykjanesbær byggi saman aðstöðu fyrir starfsemi sína inn á Fitjum við Reykjanesbæ. Þannig yrðu ráðhús og höfuðstöðvar undir einu og sama þaki.

Í fréttabréfi HS kemur fram að arkitektastofa hefur verið fengin til að vinna hugmyndavinnu að málinu og í janúar síðastliðnum fóru fulltrúar HS hf til Danmerkur ásamt arkitektum og fulltrúum frá Reykjanesbæ, en bærinn er einnig að skoða möguleika á byggingu nýs ráðhús.

Um er að ræða aðstöðu fyrir starfsemi HS hf. alls um 3500 fermetra sem skiptist í skrifstofuhúsnæði alls 2000 fermetrar og verkstæði og lageraðstöðu, alls 1500 fermetrar. Reykjanesbær yrði með aðstöðu upp á alls 4000 fermetra. Um er að ræða tvö aðskilin hús sem yrðu tengd saman með anddyri eða ljósagarði alls 1000 fermetra. Þar yrði móttaka, afgreiðsla og hugsanlega matsalur fyrir starfsmenn.