Þráinn Bertelsson, þingmaður utan flokka, sagði á Alþingi rétt í þessu að hann væri á  móti frumvarpinu um Icesave-ríkisábyrgðina. „Ég vara við þessum samningum með eða án fyrirvara," sagði hann.

Þriðja og síðasta umræða fer nú fram um Icesave-frumvarpið á Alþingi.

Þráðinn kvaðst vona að hægt væri að snúa sér að því að endurreisa hér mannsæmandi þjóðfélag þegar Alþingi losnaði úr fjötrum Icesave-málsins.

„Ég vona að við þurfum ekki að horfa upp á það framar að Alþingi Íslendinga sé lamað vikum og mánuðum saman vegna sligandi nauðungarsamninga við ellimóð og snakill stórveldi sem eiga harma að hefna á útsmognum íslenskum gróðadólgum en kjósa frekar að ráðast á saklausa þjóð," sagði hann meðal annars.

Forseti þingsins, Siv Friðleifsdóttir, beindi því til þingmanna, í lok ræðu Þráins, að þeir gættu orða sinna.