Gísli Þorsteinsson hefur verið ráðinn markaðs- og kynningarstjóri matvælarannsóknafyrirtækisins Matís ohf., segir í tilkynningu.

Fyrirtækið er opinbert hlutafélag en þar sameinast starfsemi Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Matvælarannsókna Keldnaholti (MATRA), Rannsóknastofu Umhverfisstofnunar og líftæknifyrirtækisins Prokaria.

Gísli starfaði lengst af sem blaðamaður, þar á meðal hjá Morgunblaðinu. Hann hefur undanfarin tvö ár starfað sem upplýsingafulltrúi fjarskiptafyrirtækisins Vodafone.

Matís ohf. tók til starfa um áramót. Markmið fyrirtækisins er að efla samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu, stuðla að hollustu og öryggi í matvælaiðnaði, stunda öflugt rannsóknar- og þróunarstarf og efla samstarf við háskóla og fyrirtæki.