Skema er íslenskt fyrirtæki en unnið er að því að höfuðstöðvar félagsins verði í Bandaríkjunum og Skema því dótturfélag reKode, sem starfrækt er í Bandaríkjunum. Ferlið hefur verið mikill hausverkur að sögn Rakelar Sölvadóttur, stofnanda fyrirtækisins. Hún tók nýverið á móti þrennum verðlaunum á meðan hún var stödd hér á landi en hún er núna búsett í Bandaríkjunum þar sem hún kemur upp reKode. Rakel fékk hvatningarverðlaun Félags kvenna í atvinnulífinu, UT-verðlaun SKÝ 2014 og var valinn ungi frumkvöðull ársins að mati JCI. Það var hins vegar Forbes sem benti á Skema á síðasta ári sem eitt af tíu fyrirtækjum sem vert væri að fylgjast með í framtíðinni.

Þurfti að fá samþykkti fyrir 75,6 dollurum

„Það var ekkert mál að stofna félagið úti en samkvæmt lögum þurftum við leyfi Seðlabankans því við þurftum að leggja til hlutafé. Það tók þrjá mánuði að fá samþykki fyrir 75,6 dollurum sem hlutafé, samþykki sem ég þurfti til að sýna fram á eignarhlut til að fá landvistarleyfi í Bandaríkjunum. Seðlabankinn gerðist jafnvel svo grófur að spyrja hvar ég hefði fengið þessa dollara. Ég fékk þá fjármuni með því að fara í „sokkaskúffuna“ hjá börnunum og fá gjaldeyri lánaðan,“ segir Rakel og bendir á að þegar þetta gekk í gegn og reKode átti að kaupa Skema tók við annars eins pakki sem bæði var tímafrekur og kostnaðarsamur.

„Kostnaðurinn við ferlið var því gríðarlegur fyrir lítið sprotafyrirtæki, bæði hvað varðar lögfræðikostnað og tafir við að klára fjármögnun í átta mánuði. Við vorum sett undir sama hatt og margra milljarða króna fyrirtæki sem er ekki eðlilegt,“ segir Rakel Sölvadóttir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .