Rakel Pálmadóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Harklinikken á Íslandi, sem er alþjóðlegt hárvörumerki sem opnaði fyrsta útibú sitt í Reykjavík að Laugavegi 15 í lok maí síðastliðnum. Þar er bæði starfrækt verslun og kliník.

Rakel starfaði undanfarin fimm ár hjá Pandora í London og suðaustur Englandi. Hún sá þar um almennan stuðning við verslunarstjóra búðanna, hvort sem það voru ráðningar, skipulag eða upplifun viðskiptavina. Hún var einnig yfir innkaupum hjá fyrirtækinu um tíma og sá um vörulager og vörustjórnun.

Árin 2013-2015 starfaði hún sem verslunarstjóri hjá Kiehl´s í Magasin Kaupmannahöfn, sem þá var flaggskipsbúð fyrirtækisins á Norðurlöndunum. Hún starfaði áður á hárgreiðslu- og snyrtistofunni Kyhl Coiffure í Helsingör í Danmörku og sá um daglegan rekstur auk þess að sjá um meðferðir.

„Ég ákvað að flytja aftur heim til Íslands eftir yfir 15 ára búsetu erlendis og bauðst þá þetta spennandi starf sem framkvæmdastjóri Harklinikken á Íslandi. Harklinikken er þekkt fyrir afburðameðferðir á hárlosi kvenna, karla og almennri heilsu hársins. Mér líkaði sérstaklega vel við gildi og stefnu fyrirtækisins og að sjálfsögðu það að vörurnar eru allar unnar úr innihaldsefnum sem hægt er að treysta. Ég hlakka til að taka á móti viðskiptavinum og samstarfsaðilum hér á Íslandi," segir Rakel.

„Hér í nýja útibúinu á Laugavegi starfa hársérfræðingar Harklinikken, allir þrautþjálfaðir í að finna vandamál í hári og hársverði ásamt þjónustu við viðskiptavini. Byggt er á hefð Harklinikken fyrir einstaklingsmiðaðri og persónulegri þjónustu, sem skapað hefur vörumerkinu sérstöðu á markaði. Auk þess að fræða neytendur um vöruna geta hársérfræðingar einnig veitt þeim sem líta við ráðgjöf án þess að hafa bókað tíma og hafa áhuga á sérsniðinni meðferð við hárþynningu.“