Lyfjafyrirtækið Alvotech hefur ráðið Rakel Óttarsdóttur sem framkvæmdastjóra upplýsingatæknisviðs.  Hún mun bera ábyrgð á upplýsingatæknimálum fyrirtækisins og verður hluti af framkvæmdastjórnarteymi Alvotech. Rakel kemur frá Össuri en þar starfaði hún sem yfirmaður upplýsingatæknimála. Áður starfaði Rakel hjá Arion banka í um 14 ár, þar sem hún var meðal annars framkvæmdastjóri upplýsingatæknisviðs og framkvæmdastjóri þróunar- og markaðssviðs. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

„Rakel tekur við starfinu af Guðmundi Óskarssyni framkvæmdastjóra upplýsingatæknisvið Alvotech og Alvogen, sem nú kveður eftir árangursríkt og skilvirkt uppbyggingarstarf undanfarinna sjö ára hjá félögunum,“ segir í tilkynningu Alvotech.

Mark Levick, forstjóri Alvotech, þakkar Guðmundi sérstaklega fyrir vel unnin störf á undanförnum árum. „Guðmundur hefur skilað framúrskarandi starfi fyrir systurfyrirtækin Alvotech og Alvogen og við óskum honum velfarnaðar í framtíðinni," segir hann bætir við: „Rakel kemur til Alvotech með mikla þekkingu af upplýsingatækni og alþjóðlega reynslu sem mun nýtast okkur vel í frekari uppbyggingu félagsins. Hún verður góð viðbót við öflugan stjórnendahóp fyrirtækisins."

Rakel er með B.Sc. í tölvunarfræði frá Háskóla íslands (1997) og MBA gráðu frá Duke University (2002). Hún er gift Gísla Óttarssyni verkfræðingi og meðal áhugamála Rakelar eru ferðalög, veiði og skíði.

Rakel segist hlakka til að hefja störf hjá Alvotech og að spennandi tímar séu framundan.

„Fyrirtækið hefur á síðustu árum skipað sér í fremstu röð líftæknifyrirtækja á heimvísu og sett sér metnaðarfull markmið um að bæta lífsgæði fólks og lækka lyfjakostnað. Ég vonast til að reynsla mín og þekking nýtist vel og styðji við framtíðarmarkmið fyrirtækisins."

„Hjá Alvotech starfa nú um 500 sérfræðingar og vísindamenn í fjórum löndum. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru innan Vísindagarða Háskóla Íslands en aðrar starfsstöðvar Alvotech eru í Þýskalandi, Sviss og í Bandaríkjunum. Líftæknilyf Alvotech sem nú eru í þróun eru hliðstæðulyf við frumlyf sem eru á markaði í dag og munu renna af einkaleyfi á næstu árum. Lyfin eru meðal annars notuð til meðferðar á erfiðum sjúkdómum, eins og t.d. gigt, psoriasis og krabbameini,“ segir í niðurlagi tilkynningar Alvotech.