„Mér líst vel á þetta. En ég er ekki alveg spáný í þessu og er aðeins búin að prófa starfið,“ segir fréttamaðurinn Rakel Þorbergsdóttir, sem ráðin hefur verið varafréttastjóri á RÚV.

Rakel verður eins fjögurra fréttastjóra á RÚV ásamt þeim Brodda Broddasyni, Sigríði Hagalín Björnsdóttur og Ingólfi Bjarna Sigfússyni. Hún var staðgengill fréttastjóra fyrir sameiningu fréttastofa RÚV árið 2008.

Rakel hóf störf á fréttastofu Ríkisútvarpsins sumarið 1999 en flutti sig yfir til fréttastofu Sjónvarps árið eftir. Hún hefur sinnt vaktstjórn á RÚV á milli sex til sjö ár.

Rakel segir í samtali við vb.is að þótt ábyrgð hennar verði mikil þá verði ekki miklar breytingar á starfinu við þetta. Hún muni t.d. enn sinna vaktstjórn eins og áður.