Miklar hækkanir á íbúðaverði það sem af er ári gefa til kynna að enn ríki mikil eftirspurn á fasteignamarkaði, þrátt fyrir að greinendur séu almennt sammála um að þensluskeið undanfarinna ára sé nú á síðustu metrunum.

Frá áramótum til lok maí sl. hefur verð fasteigna hækkað um 9,5% og þarf að leita aftur til ársins 2005 til að finna álíka hækkanir og síðastliðna mánuði.

Endurvakinn kraftur á fasteignamarkaðinum hefur haft töluverð áhrif á vísitölu neysluverðs, sem hefur hækkað um 2,1% frá áramótum, en að húsnæðisliðnum undanskildum mælist verðbólgan hins vegar ekki nema 0,4% á sama tímabili.

Seðlabankinn mun því á ný þurfa að glíma við hækkandi húsnæðisverð eftir skammvinnt frí frá þeim áhyggjum á síðari hluta ársins 2006.

Hagfræðingar eru ekki á einu máli um hvað valdi hækkunarhrinunni nú, en við blasir að stýrivaxtahækkanir Seðlabankans hafa ekki dugað til að hemja eftirspurnina eins og þeim er ætlað. Helst hafa spjótin staðið á Íbúðalánasjóði og hækkun á útlánaheimildum sjóðsins í vetur.

Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sagði til að mynda á ráðstefnu Seðlabankans á dögunum að samkeppni viðskiptabankanna og ÍLS væri meginorsök þess að Seðlabankanum hafi ekki tekist að koma böndum á eftirspurnaþensluna í hagkerfinu. Greiningadeildir bankanna hafa ekki mótmælt þessari skýringu.

Talsmenn Íbúðalánasjóðs hafa hins vegar mótmælt af hörku og segja röksemdafærslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í engum tenglsum við raunveruleikann.

Fasteignalánin eru verðmætar eignir fyrir bankana og í þeim felst margvíslegur ávinningur, eins og hærri lánshæfiseinkunn og aukin markaðshlutdeild á öðrum sviðum bankaviðskipta. Samkeppnin kynni því að vera litlu minni þótt Íbúðalánasjóð nyti ekki við.

Eftirspurn eftir húsnæði hér innanlands og eftirspurn erlendra fjárfesta eftir verðtryggðum skuldabréfum bendir í það minnsta til þess að báðir aðilar geti haldið kappinu áfram enn um sinn.