Velta Actavis á fyrsta ársfjórðungi nam tæplega 102 m. evra og var því töluvert undir spá greiningardeildar KB banka um tæplega 111 m. evra veltu á tímabilinu. EBITDA félagsins var sömuleiðis nokkuð undir spá Greiningardeildar, nam 24,6 m. evra samanborið við 27,7 m. evra spá þeirra. EBITDA sem hlutfall af tekjum er því lægra en við áætluðum eða 24,1% samanborið við spá þeirra um 25,0%. Hagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) nemur 18,9 m. evra sem er um 2,1 m. evra undir þeirra spá sem hljóðaði upp á 20,9 m. evra.

"Fjármagnsliðir Actavis voru töluvert neikvæðari en spá okkar gerði ráð fyrir. Fjármagnsliðir voru neikvæðir sem nam 7,2 m. evra en við gerðum ráð fyrir að þeir yrðu neikvæðir um 3,5 m. evra. Þá var umtalsvert frávik á gjaldfærðum tekjuskatti frá okkar spá vegna skattspörunar á Möltu að upphæð 1,2 m. evra. Hagnaður fyrsta ársfjórðungs nam 11,1 m. evra sem er 2,7 m. evra undir spá okkar um 13,8 m. evra hagnað á tímabilinu. Uppgjörið í heild er því undir væntingum," segir í áliti Greiningardeidlar.

Greiningardeild hefur að undanförnu mælt með undirvogun á bréfum í Actavis. Í ljósi þess að uppgjörið nú var undir væntingum Greiningardeildar sjáum við ekki tilefni til að breyta ráðgjöf okkar og mælum því áfram með undirvogun á bréfum félagsins.