Þrátt fyrir að þriðji ársfjórðungur hafi ekki staðið fyllilega undir væntingum og verið töluvert lakari en annar ársfjórðungur, verða horfur í rekstri Jarðborana að teljast góðar segir greiningardeild KB banka í áliti sínu sem var að koma út. Samningur við Orkuveitu Reykjavíkur tryggir félaginu stöðugar tekjur til næstu fjögurra ára og jafnframt segir félagið verkefnastöðu samstæðunnar bæði innanlands og utan afar góða og horfur á veltuaukningu milli ára. Greiningardeild KB banka ítrekar því fyrri ráðgjöf sína um yfirvogun á bréfum Jarðborana.

Hagnaður Jarðborana á þriðja ársfjórðungi nam 211 milljónum króna sem er í samræmi við væntingar greiningardeildar KB banka um 195 milljóna kr. hagnað. Hins vegar er rétt að líta til þess að hagnaður Jarðborana af sölu Einingaverksmiðjunnar skilar um 75 milljón kr. hagnaði eftir skatt, en ekki er tekið tillit til hans í spá þeirra. Afkoman af reglulegri starfsemi er því um 60 milljónum kr. lægri en þeir áttu von á.

Hagnaður Jarðborana á þriðja ársfjórðungi síðasta árs nam rúmum 140 milljónum kr. og er því töluvert meiri nú. Sé hins vegar horft framhjá söluhagnaði af dótturfélagi sem er óreglulegur liður, er hagnaðurinn um 136 m.kr. og stendur því nánast í stað milli ára segir greiningardeild KB banka.