Greiningardeild Glitnis verðmetur rekstur Icelandic Group á 20,2 milljarða króna, sem gefur verðmatsgengið 7,0 krónur á hlut.

?Verðmatsgengið er 9,7% undir gengi á markaði (7,75). Ráðlegging okkar til fjárfesta er að selja bréf í félaginu horft til langs tíma. Markgengi (e. target price) er 7,4 en það er spá okkar um hvar gengi bréfa í félaginu standi að sex mánuðum liðnum,? segir greiningardeildin.

Hún segir að rekstur Icelandic Group samstæðunnar hafi gengið brösuglega undanfarna fjórðunga.

?Afkoma nokkurra dótturfélaga hefur verið undir væntingum og þannig dregið niður afkomu samstæðunnar. Við teljum að í ljósi reynslu síðustu tveggja ára muni taka nokkurn tíma áður en reksturinn nær sér á ásættanlegt stig aftur.

Við búumst þó við því að afkoman batni talsvert á næsta ári og enn frekar árið 2008. Mikil óvissa er um hversu langan tíma tekur að bæta reksturinn í þeim félögum sem verst hafa gengið og gera hann arðbæran,? segir greiningardeildin.

Vaxtaberandi skuldir félagsins námu 563 milljón evrum (51,7 milljarðar króna) í lok þriðja fjórðungs og eiginfjárhlutfallið var 20,9%.

?Skuldirnar eru íþyngjandi fyrir félagið, sérstaklega í ljósi þess hvernig reksturinn hefur gengið undanfarna fjórðunga. Það er að okkar mati mikilvægt fyrir félagið að minnka skuldir til að lækka vaxtagreiðslur,? segir greiningardeildin.