Verðmatsgengi greiningardeildar Glitnis á Marel er hækkað í 87,3 krónur á hlut úr 79,3 frá fyrra verðmati sem birt var í maí. Metur hún því félagið á 32,3 milljarða króna. Fyrir opnun markaðar í dag var markaðsgengið 92,5 krónur á hlut, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis. Sex mánaða markgengið hækkar í 95 krónur á hlut úr 88 frá afkomuspá sem birtist í júlí.

?Verðmatsgengið er 5,6% undir gengi á markaði og 17,9% yfir útboðsgengi í hlutafjárútboði félagsins í september á síðasta ári,? segir greiningardeildin. ?Ráðlegging okkar til fjárfesta er að halda bréfum í Marel horft til lengri tíma.?
Helstu ástæður fyrir hærra verðmats- og markgengi eru meðal annars vegna þess að gengiskross evru og krónu hefur hækkað auk þess sem félagið hefur hagnast á eign sinni í eignarhaldsfélaginu LME þar sem gengi á Stork NV hefur hækkað. Að öðru leyti eru rekstrarforsendur lítið breyttar.

?Rekstrarhorfur fyrir næstu misseri eru góðar og Marel mun að okkar mati njóta góðs af jákvæðum samlegðaráhrifum vegna ytri vaxtar undanfarið. Við teljum að næstu vikur verði spennandi hjá Marel þar sem líklegt er að fljótlega skýrist um afdrif Stork NV. Eignarhaldsfélagið LME (í eigu Landsbanka, Eyris og Marel) hefur aukið hlut sinn í Stork NV í 32,2% og því aukast líkur á því að stærstu eigendur Marel nái yfirtökum í félaginu og sameini að lokum starfsemi Marel og Stork Food Systems,? segir greiningardeildin.