Tískuvöruframleiðandinn Ralph Lauren ætlar að skera niður starfsmannafjölda sinn um 15% áður en yfirstandandi ár rennur sitt skeið. Er það hluti af hagræðingaraðgerðum tískurisans, sem leitast eftir því að skera niður kostnað til að bregðast við áhrifum COVID-19 faraldursins. Umræddur faraldur hefur orðið til þess að sala Ralph Lauren hefur dregist saman. Reuters greinir frá.

Ralph Lauren rekur 530 verslanir á alþjóðavísu, en auk þess að að ráðast í áðurnefndar uppsagnir ætlar fyrirtækið að færa sig í auknum mæli yfir í sölu í gegnum vefverslun.

Ekki er gefið upp hversu margir munu koma til með að missa starf sitt eða hvers konar störf munu helst lenda undir niðurskurðarhnífnum, en miðað við 24.900 starfsmannafjölda eins og staðan er í dag má reikna með að ríflega 3.700 manns muni missa vinnuna.