Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir ljóst að ef Íslendingar ætla að ná markmiðum sínum um orkuskipti og standa við skuldbindingar sínar í loftslagsmálum þurfi aukna endurnýjanlega orku hér á landi og það kalli á að virkjað verði meira.

„Við höfum sett okkur markmið í gegnum Parísarsamkomulagið og ætlum okkur að vera jarðefnaeldsneytislaust land eftir nokkra áratugi," segir Hörður.

Hann bendir á að í nýlegri skýrslu Samorku hafi verið áætlað að 300 MW raforkuframleiðslu þurfi til svo að Ísland geti dregið úr losun í samgöngum í samræmi við Parísarsamkomulagið og ætli Ísland að skipta út öllu jarðefnaeldsneyti í samgöngum innanlands, í bílum, skipum og flugvélum, þurfi til um 1.200 MW. Til samanburðar er uppsett afl raforkukerfisins hér á landi um 3.100 MW.

„Þessi orka er ekki til staðar í landinu. Kerfið er nálægt því að vera fullnýtt og að mestu bundið í langtímasamningum við núverandi viðskiptavini."

En um leið séu að verða til fjölmörg ný tækifæri fyrir Ísland. „Það eru mjög spennandi viðskiptatækifæri sem við sem samfélag þurfum að taka afstöðu til hvort við viljum nýta okkur," seg ir Hörður.

Framleiðsla á rafeldsneyti á borð við vetni muni til að mynda skipta miklu í að draga úr losun á heimsvísu. „Íslendingar hafa mikil tækifæri í framleiðslu á rafeldsneyti, bæði innanlands í orkuskiptum og eins í útflutningi ef við höfum áhuga á því."

Um leið liggi fyrir mikil tækifæri fyrir Ísland á sviði gagnavera sem og í aukinni matvælaframleiðslu sem falli vel að loftslagsmarkmiðum okkar. Þá megi vænta þess að núverandi viðskiptavinir muni hafa áhuga á að bæta við sína framleiðslu jafnt og þétt eins og 15 milljarða fjárfesting Norðuráls á Grundartanga sýnir.

Rammaáætlun á endastöð

Hörður segir að Landsvirkjun hafi næga orkukosti í nýtingarflokki sem stendur. Hins vegar sé orðið ljóst að hugsa þurfi upp á nýtt ferlið við val á virkjanakostum. „Rammaáætlun er komin á ákveðna endastöð. Það hefur mistekist að vinna eftir þessu fyrirkomulagi þó að uppleggið í upphafi hafi verið gott. Það hefur heldur ekki tekist að skapa sátt um þá kosti sem að hafa lent í nýtingarflokki."

Í rammaáætlunarferlinu er skipuð verkefnastjórn til fjögurra ára sem skilar af sér mati á virkjunarkostum til Alþingis. Alþingi hefur enn ekki samþykkt þriðja áfanga rammaáætlunar þó að verkefnisstjórnin hafi lokið störfum árið 2017. Á meðan er unnið að fjórða áfanga rammaáætlunar sem þó á að byggja á niðurstöðu Alþingis í þriðja áfanga.

„Það var illmögulegt fyrir Alþingi að taka til meðhöndlunar þriðja áfanga þegar faghóparnir höfðu ekki lokið sinni vinnu. Það unnu bara tveir faghópar af fjórum. Það var aldrei horft á efnahagsmálin eða þörfina fyrir orku."

Hörður segir það stjórnmálanna að finna nýtt kerfi sem geti leyst rammaáætlun af hólmi. „En það er afar mikilvægt að það sé tekin afstaða til þess hverjar eru þarfir samfélagsins fyrir orku. Hljóð og mynd þarf að fara saman. Ef við setjum okkur markmið í loftslagsmálum um að útrýma jarðefnaeldsneyti á Íslandi er það ekki gert öðruvísi en að það sé til orka til þess. Í sambærilegri vinnu í Noregi var útgangspunkturinn: Samfélagið þarf svona mikið af orku, hvernig ætlum við að vinna hana og velja þá kosti sem hafa minnst áhrif á umhverfið?

Nánar er rætt við Hörð í sérblaðinu Orka & iðnaður sem fylgdi Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .