Rammagerðin og Sjóklæðagerðin hafa samið við Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. (FLE) um að hefja verslunarrekstur í suðurbyggingu flugstöðvarinnar 1. apríl næstkomandi. Í júní, um leið og fyrsti hluti af nýju brottfararsvæði flugstöðvarinnar verður tilbúin, opnar ný og glæsileg verslun í aðalbyggingunni segir í tilkynningu FLE.

Sjóklæðagerðin selur útivistar- og sportfatnað og leggur áherslu á vörumerkin 66° Norður og Nike. Sjóklæðagerðin býður mikla fjölbreytni í fatnaði fyrir alla aldurshópa og leggur áherslu á hönnun og gæði.
Undanfarin 60 ár hefur Rammagerðin verið leiðandi í sölu á íslensku handverki, ullarvörum og minjagripum. Mikill vöxtur hefur verið í framleiðslu á innlendu handverki og hefur Rammagerðin á boðstólum mikið úrval af vörum frá innlendum listamönnum.

Rammagerðin og Sjóklæðagerðin taka við þessum vöruflokkum frá Íslenskum markaði. FLE hefur rekið Íslenskan markað í tæp 2 ár en nú sér fyrir endann á því. Frá og með 1. apríl n.k. mun Íslenskur markaður hætta rekstri í flugstöðinni og FLE ekki koma frekar að þeim rekstri.
Samningurinn er einn þáttur í að bæta þjónustu við flugfarþega meðal annars með auknu framboði á vörum og vörumerkjum, auk þess að auka hlut einkaaðila í verslun í flugstöðinni en sú stefna var mótuð þegar ráðist var í forval um val á verslunaraðilum.