„Ég var ekkert endilega að plana að snúa aftur heim til Íslands, nú þegar störfum mínum hér í Tíblisi í Georgíu er lokið, bara að svipast um hvað ég ætti að gera næst og mest að huga að því að vinna áfram erlendis, enda langað til þess alveg frá því að ég var barn,“ segir Una Sighvatsdóttir sem var valin úr hópi 188 umsækjenda í starf sérfræðings hjá embætti Forseta Íslands.

„Ég hef verið að vinna á vettvangi NATO fyrir utanríkisráðuneytið síðustu fjögur ár, fulltrúi Íslands í alþjóðasamstarfi sem mér hefur þótt mikill heiður. Að starfa áfram á þessum vettvangi togaði því í mig en það er jafnvel enn meira spennandi að fá að vinna fyrir forsetaembættið.“ Una vann þar áður sem fréttamaður á Stöð 2 og Morgunblaðinu í átta ár.

„Þá skráði ég mig á viðbragðslista friðargæslunnar hjá utanríkisráðuneytinu, en leið mín inn í starfið var að þar vantaði einhvern sem kynni að höndla sjónvarp og gera myndbönd auk þess að sjá um blaðamannafundi í Kabúl í Afganistan. Öll reynsla á erlendri grund hjálpar til að gera sig gjaldgengan í svona störf og hafði ég því til að mynda meðvitað valið mér bæði skipti- og mastersnám úti,“ segir Una.

„Ég er forfallinn ferðafíkill og að ferðast um heiminn er mín stærsta ástríða í lífinu, en það er líka alltaf yndislegt að vera heima á Íslandi. Ég fæ aldrei nóg af því að fara upp á fjöll, það eru góð tækifæri til þess heima, sem og hérna í Georgíu, þar sem er ótrúleg fjölbreytni í litlu landi. Hér eru yndisleg vínræktarhéruð, eyðimerkurlandslag þegar maður nálgast Aserbaídsjan og svo hitabeltisloftslag við Svartahafið. Svo er menningin hérna svipuð og Íslendinga, þeir redda öllu þó oft sé það á síðustu stundu.“

Una segist hlakka mikið til að fá að vinna með forsetahjónunum sem hún hafi heillast af. „Það má kannski segja að óbeint hafi ég unnið mitt fyrsta embættisverk þegar þau voru nýkjörin og ég að hefja störf í Kabúl. Á herstöðinni var félagsmiðstöð norrænu þjóðanna og þar tók ég eftir að kóngafólkið og þjóðhöfðingjar hinna Norðurlandanna voru uppi á vegg í heiðurssæti en engin mynd af forseta Íslands sem mér þótti ekki nógu gott,“ segir Una.

„Ég útvegaði útprentaða mynd af Guðna og keypti myndaramma, sem lenti í þyrluslysi má segja því þegar ég var nýbúin að kaupa hann flaug Chinook herþyrla yfir mig í lágflugi og því fylgdi svo mikill sviptivindur að ramminn var rifinn úr höndum mér og brotnaði í spón. Á endanum tókst þetta þó og við héldum athöfn með um 100 manns í félagsmiðstöðinni þar sem þjóðsöngurinn var spilaður og ég bakaði vöfflur þegar myndin var afhjúpuð.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .