Stjörnukokkurinn Gordon Ramsay gerði góða ferð í Eystri-Rangá á dögunum. Hann naut leiðsagnar Friðjóns Sæmundssonar við ána. Þrátt fyrir mikið vatn náði Ramsay að landa fallegum laxi á Hofteigsbreiðu, sem er rétt fyrir neðan veiðihúsið og yfirleitt einn af betri veiðistöðum árinnar.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Ramsay veiðir á Íslandi. Fyrir þremur árum veiddi hann sjóbirting í Tungulæk. Fyrstu fregnir af veiðiáhuga Ramsays birtust í íslenskum fjölmiðlum árið 2007 þegar sagt var frá því að hann hefði komið hingað í laxveiði í boði Kaupþings, en hann var þá viðskiptavinur bankans.