Indverska lyfjafyrirtækið Ranbaxy hefur hætt við að gera tilboð í samheitalyfjaeiningu Merck, samkvæmt frétt sjónvarpstöðvarinnar CNBC TV18, sem stuðlaði að því að gengi hlutabréfa félagsins hækkaði um rúmlega 6% í dag.

Indverskir fjölmiðlar greindu einnig frá því að annað indverskt fyrirtæki, Torrent Pharmaceuticals, hafi gert tilboð í eininguna í samstarfi við fjárfestingasjóði.

Önnur fyrirtæki sem hafa sýnt samheitalyfjaeiningu þýska fyrirtækisins áhuga eru Actavis, ísraelska félagið Teva og bandaríska lyfjafyrirtækið Mylan Laboratories.

Bandaríski fjárfestingabankinn Bear Stearns hefur umsjón með sölunni og mun að öllum líkindum velja tvo til fjóra hugsanlega kaupendur á næstu vikum. Merck-einingin er verðmetin á sex milljarða Bandaríkjadala.