Í hvert sinn sem sviðsstjóri hjá Reykjavíkurborg lætur af störfum heldur borgin veislu á kostnað skattgreiðenda sinna, sem og þegar stjórnmálamenn hafa hætt, líkt og þegar Sóley Tómasdóttir, fyrrverandi forseti borgarstjórnar, hætti í borgarstjórn.

Hélt borgin í síðustu viku slíka veislu í tilefni þess að Svanhildur Konráðsdóttir sem lætur af störfum til að taka við sem forstjóri Hörpu, eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um .

70 manns á gestalista

Kostaði veislan borgina 400 þúsund krónur að því er segir í Fréttablaðinu , en tæplega helmingur þess, 195.600 krónur fóru í snittur og pinnamat en á gestalistanum voru alls um 70 manns. Um 70 þúsund krónur fóru í skemmtiatriði, rúmar 50 þúsund í drykkjarföng og tæp sama upphæð í kostnað við framreiðslu og svo fór restin í blóm og gjöf.

„Mér finnst þetta ekki vera frétt, eða þannig séð,“ segir Bjarni Brynjólfsson, upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar.„Ég held að það hafi alltaf verið haldið einhvers konar kveðjuhóf þegar æðstu embættismenn borgarinnar hætta.“

Fyrirfólk úr menningarlífinu fjölmennti

Líf Magneudóttir, núverandi forseti borgarstjórnar segir eðlilegt að kveðja starfsfólk með táknrænum hætti og gera vel við það, en á gestalista voru aðal- og varamenn í menningar- og ferðamálaráði, starfsfólk menningar og ferðamálasviðs, stjórn Höfuðborgarstofu og fyrrverandi formenn ráðsins.

Má þar nefna Einar Örn Benediktsson, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Þórólf Árnason og Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra, en einnig ýmsir úr ferða- og menningargeiranum þess utan, eins og Jakob Frímann Magnússon tónlistarmaður, Andri Snær Magnason rithöfundur, Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri og margir fleiri.

„Fengi að fjúka ef harðar í ári“

„Það væri væntanlega það fyrsta sem fengi að fjúka ef það harðnar í ári að verja peningum í slíkt,“ sagði Líf og vísaði veislurnar og mögulegan sparnað af því að fækka þeim.

Halldóri Halldórssyni, oddvita Sjálfstæðisflokksins, sem situr í minnihluta í borgarstjórn, segir það koma sér á óvart hve dýr veislan sé.„Mér finnst mjög eðlilegt að kveðja fólk og sýna því tilhlýðilega virðingu fyrir vel unnin störf en mér finnst þetta dýrt.“