Þeir sem hyggjast fara á forsýningu á nýjustu, en jafnframt síðustu, kvikmynd Christophers Nolan um ævintýri Leðurblökumannsins, The Dark Knight Rises, þurfa að kafa djúpt í veskið.

Á Smartmoney, bloggsvæði Wall Street Journal, er greint frá því að ekki sé hægt að fá miða á svörtum markaði fyrir minna en 100 dollara, þ.e. 12.600 íslenskar krónur.

Í Los Angeles er miðaverð í allt að 125 dollurum og enn hærra í Iowa.

Á eBay er síðan hægt að fá tvo miða á fyrstu sýninguna í Los Angeles í kvöld á 300 dollara. Það jafngildir um 38 þúsund krónum.

Myndin um ævintýri Batman verður forsýnd hér á landi annað kvöld í kvikmyndahúsum Sambíó í Egilshöll og við Álfabakka en í Háskólabíói á laugardag. Almennar sýningar hefjast svo í næstu viku. Miðaverðið er tíu sinnum lægra hér en ytra eða 1.250 krónur.