Ranglega var sagt til um árslaun Þorsteins Más Baldvinssonar, útgerðamanns á Akureyri, í frétt Viðskiptablaðsins þann 6. maí sl. þegar fjallað var um hæstu skattgreiðendur á Íslandi árið 2008.

Sem kunnugt er liggja álagningaskrár skattstjóra opinberlega fyrir 1. ágúst ár hvert. Eftir að álagningaskráin hefur verið birt hafa einstaklingar frest til þess að skila inn beiðni um leiðréttingu í formi kæru. Það er því fyrst nú sem skattskrá fyrir tekjuárið 2008 liggur fyrir eins og hún er í raun og veru.

Þorsteinn Már greiddi tæpar 170 milljónir króna í skatt á árinu og sagt var í frétt blaðsins að því mætti ætla að tekjur hans á árinu hefðu numið um 55 milljónum króna á mánuði. Sú tala byggðist á útreikningum Viðskiptablaðsins.

Hins vegar hafði Þorsteinn Már, í lok júlí á síðasta ári, sent fjölmiðlum tilkynningu vegna umfjöllunar um álagningu opinberra gjalda. Þar kom skýrt fram að tæplega 70% þeirra skattgreiðslna sem hann hafi greitt á árinu 2008 væru tilkomnir vegna flutnings á hlutabréfum í Samherja hf. sem voru í hans persónulegu eigu yfir í sérstakt félag í eigu hans og Helgu Steinunnar Guðmundsdóttur.

„Þannig er ekki um innleystan hagnað að ræða fyrir mig og hafa engir fjármunir færst til mín í tengslum við flutninginn,“ sagði Þorsteinn Már í tilkynningunni.

„Einu peningagreiðslurnar tengdar þessu máli eru því greiðsla á fjármagnstekjuskatti í ríkissjóð. Með því að flytja eignarhaldið á bréfunum yfir í sérstakt félag bar mér að greiða skatt af ímynduðum söluhagnaði sem myndast vegna áætlaðrar verðmætaaukningar á hlutabréfum í Samherja hf. yfir langt árabil.“

Þá kom jafnframt í tilkynningunni fram að umrædd bréf hefðu verið á nafni Þorsteins sl. 27 ár og að hann hefði í hyggju að eiga þau áfram í gegnum umrætt félag.

Ekki var minnst á þessa tilkynningu við vinnslu fyrrnefndar frétta í blaðinu þann 6. maí sl. en eins og sjá má á henni eru útreikningar blaðsins um mánaðarlaun Þorsteins Más rangir. Á því er beðist velvirðinga og það um leið leiðrétt.