*

laugardagur, 26. september 2020
Innlent 30. júlí 2018 18:59

Ranglega vegið að virðisaukaskattinum

Ófullnægjandi gögn um virðisaukaskatt orsökuðu töluvert fjaðrafok um helgina, en hann var sagður skila mun minna en hann gerir.

Ritstjórn
Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur skattamál á sinni könnu og er til húsa í Arnarhváli, við Arnarhól.
Haraldur Guðjónsson

Vísir sagði nú á laugardagskvöld frá niðurstöðum lokaritgerðar í viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri, en þær voru þær að virðisaukaskatturinn skilaði „sáralitlum“ tekjum í ríkissjóð, um 20 milljörðum árið 2011 og rúmum 50 milljörðum árið 2015. Hið rétta er hinsvegar að virðisaukaskattur skilar margfaldri þeirri upphæð og er stærsti tekjustofn ríkissjóðs.

Verkefnið fjallar um kosti og galla veltuskatts, og höfundurinn, Jóhann Elíasson, stingur upp á 1,5% veltuskatti í staðinn fyrir virðisaukaskattinn, sem honum reiknast til að hefði skilað um 58 milljörðum árið 2015.

Fljótlega var hinsvegar bent á mistökin. Virðisaukaskattur skilaði yfir fjórðungi heildartekna árið 2015, um 183 milljörðum króna. Konráð S. Guðjónsson hagfræðingur Viðskiptaráðs tísti um málið á Twitter og benti á að í fyrra hafi virðisaukaskatturinn skilað um það bil 240 milljörðum í ríkissjóð, og að 1,5% veltuskattur hefði aðeins skilað 63 milljörðum, og Jón Steinsson, hagfræðingur við Columbia-háskóla fór ófögrum orðum um fréttina og innihald hennar. Þá birti Íslandsbanki stutt myndskeið þar sem Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur bankans, útskýrir virðisaukaskatt í stuttu máli.

Í gær birtist svo frétt á Vísi þar sem haft var eftir Þórólfi Matthíassyni hagfræðiprófessor að virðisaukaskatturinn væri stærsti tekjustofn ríkisins og skilaði um 30% af tekjum ríkissjóðs samkvæmt fjárlögum 2018.

DV náði nú síðdegis tali af Helga Kristínarsyni Gestssyni, lektor við Háskólann á Akureyri og leiðbeinanda Jóhanns. Hann viðurkennir að tölurnar „stangist á við raunveruleikann“, og útskýrir að aðeins hafi verið stuðst við gögn Ríkisskattstjóra, en þar sé ekki tekið tillit til innflutnings. „Það er bara ákveðinn feill hjá mér að kanna ekki hvort heildartölur pössuðu og augljós yfirsjón af minni hálfu.“ Hann tekur þó fram að niðurstöður Jóhanns séu réttar út frá þeim gögnum sem notast var við.