*

miðvikudagur, 23. september 2020
Innlent 7. ágúst 2020 17:01

Rangt viðhorf eftirlitsaðila

Það er ekki hlutverk eftirlitsstofnana að ná mönnum og refsa þeim, að sögn Óla Bjarna Kárasonar.

Ritstjórn
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.
Haraldur Guðjónsson

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, segir í viðtali í nýjasta hefti Þjóðmála mikilvægt að eftirlitsstofnanir séu ekki reknar út frá þeirri hugmynd að hlutverk þeirra sé að ná mönnum og refsa þeim, heldur fremur að stuðla að heilbrigðum markaðsviðskiptum og heilbrigðum viðskiptaháttum með leiðbeinandi hætti.

„Það skortir verulega á það og það á ekki bara við um Samkeppniseftirlitið. Mér virðist það vera inngróið viðhorf hjá mjög mörgum eftirlitsaðilum, eftirlitsiðnaðinum svokallaða, að það sé einhver mælikvarði á árangur þeirra hversu mörgum þeir ná, hversu mörgum þeir refsa og leggja á stjórnvaldssektir,“ segir Óli Björn í viðtalinu.

„Þetta er rangt viðhorf en er því miður mælikvarðinn sem er notaður á árangur þeirra. Það er jafn brenglað og að halda að eftir því sem fleiri lagafrumvörp og þingsályktunartillögur eru samþykkt, því betra og skilvirkara sé þingið. Það er ekki mælikvarði á ágæti starfa þingmanna hversu mörg lagafrumvörp þeir samþykkja. Ég hef litið á það sem jákvætt hlutskipti að koma í veg fyrir framgang mála sem ekki eru góð og jafnvel til þess fallin að flækja líf okkar um of eða þyngja byrðar.“

Í viðtalinu rifjar Óli Björn upp að hann hafi í gegnum árin verið mjög gagnrýninn á gildandi samkeppnislög og á Samkeppniseftirlitið.

„Ég hef ekkert verið feiminn við það, hvorki í umræðu á þingi eða í almennri umræðu,“ segir Óli Björn.

„Ég nálgast þetta ef til vill öðruvísi en aðrir, því ég tel að það sé nauðsynlegt að hafa vel skilgreind samkeppnislög. Í flóknum reglum, til dæmis í samkeppnislögum, felast ákveðnar samkeppnishindranir fyrir hina litlu. Oft hentar það stórum fyrirtækjum, jafnvel markaðsráðandi fyrirtækjum, ekkert illa að hér séu ströng og flókin samkeppnislög og flóknar reglugerðir, því það hindrar að nýir aðilar ráðist inn á markaðinn og ógni því „jafnvægi“ sem er fyrir. Þannig að ef menn meina eitthvað með því að tryggja hér alvöru samkeppni eiga þeir einmitt að einfalda regluverkið og gera það skilvirkara.“

Í viðtalinu er farið um víðan völl. Þar fjallar Óli Björn um meirihlutasamstarfið á Alþingi sem virðist sumum þingmönnum erfiðara en öðrum, mikilvægi þess að efla heilbrigðiskerfið með einkarekstri, skattaumhverfið hér á landi, stöðu fjölmiðla og yfirburði Ríkisútvarpsins og fleira.