*

þriðjudagur, 23. júlí 2019
Innlent 10. maí 2019 14:32

Rangur dómur ekki fyrir Hæstarétt

Hæstiréttur hafnaði nýverið að veita áfrýjunarleyfi þó að bersýnilegir annmarkar hafi verið á niðurstöðu Landsréttar.

Ritstjórn
Höskuldur Marselíusarson

Hæstiréttur hafnaði nýverið að veita áfrýjunarleyfi í sakamáli þó að bersýnilegir annmarkar hafi verið á niðurstöðu Landsréttar. Var það gert þar sem rétt niðurstaða hefði ekki áhrif á ákvörðun viðurlaga og að unnt væri að leiðrétta mistökin við fullnustu dómsins.

Frá því að millidómsstigið Landsréttur tók til starfa er ekki lengur unnt að áfrýja dæmdum málum sjálfkrafa til Hæstaréttar heldur þarf rétturinn að samþykkja slíkt. Fallist er á slíkt leyfi ef líklegt þykir að niðurstaðan hafi verulega almenna þýðingu, ef málsmeðferð var stórlega ábótavant á fyrri stigum eða hafi dómur verið bersýnilega rangur að formi eða efni.

Í málinu sem um ræðir var móðir sakfelld fyrir gróft ofbeldi í garð barna sinna svo og fíkniefnalagabrot. Brot hennar voru að hluta heimfærð sem brot í nánu sambandi og að hluta sem líkamsárás. Þá var bótakröfu barnanna vísað frá dómi þar sem ekki var séð að lögmætir fyrirsvarsmenn þeirra hefðu gert kröfu um bætur fyrir þeirra hönd. Þrátt fyrir það var konan dæmd til að greiða þóknun réttargæslumanns þeirra í héraði og fyrir Landsrétti.

Hin dæmda sótti um áfrýjunarleyfi á þeim grundvelli. Lýsti ríkissaksóknari sig sammála dómþola um að hún hafi ranglega verið dæmd til að greiða þóknun réttargæslumanns og að brot hennar hefði verið heimfært undir rangt ákvæði hegningarlaganna. Báðir aðilar vildu því fá endanlegan dóm Hæstaréttar um efnið.

„Eins  og    framan  greinir  var  leyfisbeiðandi  dæmd  til að greiða sakarkostnað að meðtalinni þóknun réttargæslumanna brotaþola í héraði og fyrir Landsrétti þrátt fyrir    bótakröfum þeirra  hafi  verið  vísað  frá  héraðsdómi. Þótt  dómur  Landsréttar      þessu leyti bersýnilega rangur verður að taka tillit til þess að ríkissaksóknara er í lófa lagið að mæla fyrir um að látið verði ógert að innheimta þennan hluta sakarkostnaðar samkvæmt dóminum og ráða þannig bót á þessum annmarka án þess að til áfrýjunar þurfi að koma,“ segir í ákvörðun Hæstaréttar.

Þá féllst rétturinn á að heimfærsla brotsins hefði verið röng en að sá annmarki hefði ekki nokkur áhrif á ákvörðun viðurlaga en konan var dæmd í tveggja ára óskilorðsbundið fangelsi fyrir brot sín. Var beiðni um áfrýjunarleyfi því hafnað.

Frá áramótum hefur Hæstiréttur kveðið upp dóm í fimmtán málum en þar af eru átta kærumál. 16 áfrýjuð mál bíða þess að vera flutt fyrir réttinum.