FINANCIAL TIMES: Adecco, stærsta ráðningarfyrirtæki heims, samþykkti á mánudaginn að kaupa 29% hlut í þýska ráðningarfyrirtækinu DIS og gerði um leið tilboð í þau hlutabréf sem eftir voru. Samkvæmt tilboðinu er DIS metið á 636 milljónir evra, eða sem nemur 47 milljörðum íslenskra króna. Stærsti hluthafi DIS er Paulmann-fjölskyldan, en tilboðið hljóðar upp á 54,5 evrur á hlut og er 5,8% yfir lokaverði á föstudaginn og 17,3% yfir meðalviðskiptaverði síðustu þriggja mánaða.

Viðskiptin þykja vísbending um að Klaus Jacobs, yfirmaður og stærsti hluthafi Adecco, hyggist færa fyrirtækið úr starfsemi með lágri framlegð en miklu magni yfir í sérhæfðari verkefni. Jacobs kom markaðnum á óvart í nóvember síðastliðnum, þegar hann tók við sem forstjóri Adecco og keypti meirihluta bréfa Philippe Foriel-Destezet, sem stofnaði fyrirtækið með honum. Um leið rak hann Jérôme Caille, sem gegnt hafði starfi forstjóra undir verndarvæng Foriel-Destezet.

Samkvæmt tilboðinu mun Dieter Schieff, forstjóri DIS, taka við starfi forstjóra Adecco og Dominik de Daniel, fjármálastjóri DIS, mun gegna sömu stöðu hjá nýjum vinnuveitanda. Talið er að tilboðið sé það hátt að aðrir hluthafar hljóti að taka því, en á meðal þeirra er iðnfyrirtækið Voith.

Jacobs sagði að það væri vel þess virði að borga hátt verð fyrir DIS, vegna góðrar frammistöðu fyrirtækisins á síðustu árum. Verðið jafngildir 31 sinni hagnaði árið 2005 og 27 sinnum áætluðum hagnaði á þessu ári. "Frábær hópur stjórnenda, aukning í ráðningu fagmanna og markaðsforysta í Þýskalandi kostar sitt," sagði hann.