Embætti skattrannsóknastjóra rannsakar nú 22 verktakafélög vegna gruns um að félögin hafi reynt að komast hjá lögbundnum skattgreiðslum með því að koma ábyrgð á greiðslum skatta yfir á undirverktaka sína. Samanlögð upphæð málanna í rannsókn nemur tveimur milljörðum króna að því er kemur fram í frétt Ríkisútvarpsins um málið.

Bryndís Kristjánsdóttir skattarannsóknarstjóri skrifaði umsögn við þingsályktunartillögu um svokallaða keðjuábyrgð að reynsla embættis skattrannsóknarstjóra væri sú að verktakar hafi í vaxandi mæli reynt að koma ábyrgð skattgreiðslna á undirverktaka sinna.

Í þingsályktunartillögunni segir: „Alþingi ályktar að fela félags- og jafnréttismálaráðherra að skipa starfshóp sem hafi það hlutverk að semja lagafrumvarp um keðjuábyrgð verkkaupa og aðalverktaka með það að markmiði að lögleiða keðjuábyrgð á verktakamarkaði“.

Starf hópsins miðar að því að verkkaupar og aðalverktakar beri fjárhagslega ábyrgð á vanefndum undirverktaka á sköttum, launa og launatengdra gjalda og taki lagabreytingarnar til allra atvinnugreina.