Stjórn svissneska tryggingarisans Zurich Insurance Group,, stærsta tryggingarfélags landsins, hefur hafið rannsókn á tildrögum andláts Pierre Wauthier, fyrrverandi fjármálastjóra tryggingafélagsins, sem er eitt það stærsta í Sviss.

Rannsóknin beinist m.a. að því hvort fjármálastjórinn hafi verið undir óeðlilega miklu álagi áður en tók líf sitt. Hann hafði nokkru áður deilt við Josef Ackermann, formann stjórnar tryggingafélagsins, um uppgjör félagsins á öðrum ársfjórðungi.

Breska dagblaðið Financial Times segir um málið á vef sínum að Wauthier hafi fundist látinn á heimili sínu í svissneska bænum Zug á mánudag. Í kjölfarið hafi fundist bréf frá honum þar sem getið er samskipta hans við Ackermann.

Ackermann er einn þekktasti bankamaður í Evrópu. Hann lét af störfum sem forstjóri Deutsche Bank í maí 2012, þá nýtekinn við sem stjórnarformaður tryggingarfélagsins. Hann hefur nú sagt af sér sem stjórnarformaður tryggingarfélagsins.

Financial Times hefur eftir Ackermann að hann hafi talið ráðlegt að segja af sér vegna þrýstings frá fjölskyldu Wauthiers en hún hafi krafist þess að hann taki ábyrgð á dauða fjármálastjórans.