Þeir sem lent hafa í umferðaróhappi á síðustu árum hafa líklega kynnst fulltrúum Aðstoðar og öryggis, betur þekkt sem arekstur.is, sem gjarnan eru kallaðir út á slysstað og aðstoða við útfyllingu á tjónaskýrslu, mælingar og myndatökur á vettvangi slyss. Aðstoð og og öryggi er í eigu Ómars Þorgils Pálmasonar fyrrverandi lögreglumanns. Fyrirtækið hefur þjónustusamninga fyrir tryggingafélögin VÍS, Sjóvá, TM og Vörð sem greiða fyrir þjónustu þess.

„Þetta er hvergi til í heiminum nema hér,“ segir Ómar Þorgils aðspurður um þetta fyrirkomulag. Hann þvertekur fyrir að það fari gegn hag neytenda að tryggingafyrirtökin standi undir kostnaði af þjónustunni. „Það sem við komum að eru jafnan tveir bílar og tjón. Í samstarfi við ökumenn skráum við niður atburðalýsingu og tökum myndir. Við gætum ekki starfað ef við gengjum erinda hagsmunaaðila,“ segir Ómar. „Fólk málar stundum tryggingafélögin upp með neikvæðum hætti en mín reynsla er sú að þau borga allt upp í topp sem borga skal,“ bætir hann við. „Við gætum þess líka að ekki sé troðið á öðrum aðila þegar fólk gefur sinn framburð.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.