"Það hafa komið fram upplýsingar um að eigendur bankanna hafi verið stórtækir í þessum [gjaldmiðlaskipta]samningum. Skýringarnar á þessum samningum hafa að mínu mati ekki verið nægilegar," segir Kári Arnór Kárason, framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs. Hann vill að rannsakað verði í nákvæmisatriðum hvernig gjaldmiðlaskiptasamningar bankanna voru og þá sérstaklega hverjir voru mótaðilar lífeyrissjóða og sjávarútvegsfyrirtækja, sem veðjuðu í mörgum tilfellum á styrkingu krónunnar þegar hún veiktist mikið og féll síðan að lokum endanlega við hrun bankanna.

Stapi gerir samtals 38,5 milljarða kröfu í þrotabú Landsbankans, sem að stærstum hluta má rekja til gjaldmiðlaskiptasamnings. Þessi háa krafa skýrist m.a. af því að sjóðurinn gerði gjaldmiðlaskiptasamning við bankann sem rúllað var áfram frá einum tíma til annars. Krafan er síðan byggð á allri eignarhlið samningsins.

"Það hefur ekki náðst sátt um hvernig þessir samningar skuli gerðir upp og því er betra að hafa vaðið fyrir neðan sig," segir Kári Arnór.

Lífeyrissjóðir gera samtals tæplega 100 milljarða kröfu í þrotabú Landsbankans.