Fjölmargar tegundir af smáfiskum, hveljum og djúpfiskum svamla um í miðsjávarlögum Grænlandshafs. Ástþór Gíslason ætlar að rýna í þetta lítt kannaða lífríki.

Í nýlegri ársskýrslu Hafrannsóknastofnunar segir að á næstu árum verði aukin áhersla lögð á „rannsóknir á miðsjávartegundum (t.d. laxsíld og gulldeplu) vegna þeirra nýtingarmöguleika sem þar felast. Verður það meðal annars gert í gegnum tvö alþjóðleg verkefni styrkt af Evrópusambandinu sem stofnunin er þátttakandi í og munu standa yfir árin 2019-2023.“

Ástþór Gíslason, sjávarlíffræðingur á Hafrannsóknastofnun, stýrir íslenska hlutanum í öðru þessara verkefna, en alls taka nítján stofnanir í tíu Evrópulöndum þátt í því.

„Meginmarkmiðið er að auka þekkingu á magni, dreifingu, tegundasamsetningu og afrakstursgetu lykiltegunda í þessum miðsjávarlögum,“ segir Ástþór. „Það að meta magn og útbreiðslu og fjölbreytileika í lífríkinu á Norður-Atlantshafi er svolítið á okkur könnu.“

Fínriðin varpa

„Það sem við ætlum að gera er að skoða samsetningu þessara miðsjávarlaga í smáatriðum. Við ætlum að skoða allar tegundir og magn mismunandi tegunda, og þá er allt lífríkið undir. Við skoðum átu, plöntusvif, hveljur og fiska og reynum að mæla þetta eins vel og við getum og notum til þess nýstárlega gerð af uppsjávarvörpu sem við köllum gjarnan ljósátutroll. Þetta er fínriðin varpa þar sem möskvastærðin er ekki nema 4 millimetrar og söm í allri vörpunni bæði í belg og poka. Með þannig vörpu ættum við að fá magnbundnar upplýsingar um það sem í hana kemur, og við ættum að ná miklu í hana af því smæsta.“

Einnig verður notuð bergmálstækni til að meta magn helstu tegunda, en Ástþór segir að þar dugi ekki hefðbundin bergmálstækni þar sem botnstykkið, sem er bæði hljóðgjafi og hljóðnemi, er hafður á botni skips.

„Vandinn er sá að margar af þessum miðsjávarlífverum eru svo smáar eða þeirrar gerðar að þær endurkasta mjög illa hljóði. Til þess að „sjá“ sumar þessar lífverur þarf að nota hátíðni en hátíðnihljóðið berst illa niður og því þarf að slaka botnstykkinu niður í dýpið. Þá fáum við prófíl bæði á leiðinni niður og á leiðinni upp.“

Veiðitilraunir fyrri ára

Hér við land hafa nokkrum sinnum verið gerðar tilraunir til að veiða gulldeplu. Fyrst árið 2002 þegar gerðar voru veiðitilraunir yfir Reykjaneshrygg, en Ástþór segir þær hafa borið takmarkaðan árangur.

„Síðan árið 2009 urðu menn varir við gulldeplu í miklu magni við landgrunnsbrúnirnar suðvestur af Reykjanesi og hófust þá tilraunaveiðar sem Hafrannsóknastofnun tók þátt í og sem stóðu til ársins 2011. Norræna gulldepla var yfirleitt mest áberandi í aflanum. Árið 2016 voru einhverjar tilraunaveiðar líka og þar komu þrjú skip að verki, en ég held að þær hafi gengið síður. En þá var ísalaxsíld algeng í aflanum.“

Frá Suðurdjúpi í Grænlandshaf

„Nú erum við semsé að fara af stað og ætlum að taka sýni hérna djúpt suður af landinu, í Suðurdjúpi, og taka rannsóknarsnið austur-vestur þaðan yfir Reykjaneshrygg og inn í Grænlandshaf. Fyrirliggjandi þekking bendir til þess að magnið af þessum miðsjávarlífverum sér sérstaklega mikið einmitt í Grænlandshafi.“

Til þessa verður notaður hefðbundinn makrílleiðangur á Árna Friðrikssyni og bætt við nokkrum dögum til þessara rannsókna.

Tvær tegundir vænlegar

Hann segir einkum tvær tegundir virðast vænlegar til að reyna veiðar á, en þær eru ísalaxsíld og gulldepla.

„Það er mikið af þeim og þær þéttast í torfur. Þetta eru samt litlir fiskar. Norræna gulldepla verður svona sjö til átta sentimetra löng og ísalaxsíld heldur stærri eða um 10 sentímetrar.“

Nýtingarmöguleikar eru enn sem komið  takmarkaðir.

„Veiðiskapur á til dæmis gulldeplu er oft erfiður vegna þess að aflinn er oft blandaður til dæmis marglyttum, það er ekki eins og menn séu alltaf með hreinan afla, það er vandamál. Einnig eru vandamál í sambandi við geymslu aflans. Hann hefur takmarkað geymsluþol og það þarf helst að hafa snör handtök við að koma aflanum fljótt í land.“

Aðrir nýtingarmöguleikar

Hingað til hefur aflinn metmegnis farið í bræðslu en Ástþór segir að aðrir þátttakendur í þessu rannsóknarverkefni, einkum þó Norðmenn, hafi tekið að sér að kanna aðra nýtingarmöguleika.

„Stofnanir í Noregi eru til dæmis meira fókúseraðar á hugsanlegar veiðar. Við erum ekki alveg þar ennþá, en auðvitað geta þessar upplýsingar nýst öllum í sambandi við hugsanlegar veiðar. Svo eru stofnanir í Noregi sem eru að skoða hvort ekki megi gera meira en bara að bræða þetta í fiskeldisfóður, til dæmis hvort afurðirnar gætu nýst í lyfjaiðnaði og sem fæðubótarefni og til dæmis hvort fyrir hendi séu lífvirk efni.“

Gríðarmikill lífmassi

Miðsjávarlögin eru yfirleitt skilgreind þannig að þau nái niður á 1000 metra dýpi, en Ástþór segir að yfirleitt sé lífmassinn mestur á bilinu frá 200 til 300 metra dýpi niður á um það bil 700 til 800 metra dýpi.

„Til eru fiskar sem fara dýpra en þetta miðsjávarlífríki finnum við sjaldan fyrir neðan 1000 metra,“ segir Ástþór.

„Kveikjan að þessum rannsóknum var vísindagrein sem kom út fyrir nokkrum árum þar sem áætlað var að fiskmagnið í þessum lögum á heimsvísu kynni að vera gríðarlegt, jafnvel tíu milljarðar tonna, og ef það er rétt þá er það 100 sinnum meira en heildarfiskafli í heiminum. En jafnvel þó þetta sé ofmat þá er það vísbending um að þarna sé mikill lífmassi og kannski eftir einhverju að slægjast.“

Bindur mikið af kolefni

Ástþór segir einnig talið líklegt, ekki síst í ljósi þessi hve magnið er mikið, að lífverurnar í miðsjávarlögunum skipti máli í sambandi við kolefnisbúskapinn í hafinu.

„Hafið bindur mikið af kolefni sem hefur þýðingu í sambandi við loftslagsbreytingar, þannig að mikið af þessum gróðurhúsalofttegundum sem við erum að búa til þær enda í hafinu og bindast í djúplögum sjávar. Það er liður í þessu verkefni að reyna að setja einhverjar tölur á það hversu mikið þessi búsvæði eru að binda af kolefni, af því það er þáttur sem þarf að hafa í huga ef til nýtingar kemur.“

Hafsbotninn hreyfðist

Ástþór nefnir í lokin, að lífríkið í miðsjávarlögunum hafi fyrst uppgötvast á árum seinni heimsstyrjaldarinnar. Það var vegna bergmálstækninnar sem þá var þróuð til þess að fylgjast með kafbátum, en menn fóru síðan að hagnýta þessa tækni í líffræðirannsóknum.

„Menn tóku fljótlega eftir meira eða minna stöðugu lagi eða „teppi“ af endurvarpi á 4-800 metra dýpi. Fyrst skildu menn ekki almennilega hvað þetta væri. Hugsanlega væri þetta hafsbotn, en svo sjá menn alls konar breytingar á þessum lögum. Þau færa sig til dæmis ofar á nóttunni og niður á daginn, og það eru þá þessar lífverur.“