Breska fyrirtækið British American Tobacco (BAT) sætir nú rannsókn bresku efnahagsbrotadeildarinnar (SFO - Serious Fraud Office). Félagið hefur verið sakað um að greiða mútur í Austur-afríska ríkinu Keníu. Að sögn forsvarsmanna BAT er félagið sjálft að rannsaka ásakanirnar. Einnig er tekið fram að fyrirtækið sé reiðubúið að vinna með efnahagsafbrotadeildinni bresku að rannsókninni. Frá þessu er greint í frétt BBC , en upprunalega var sagt frá hinum meintu brotum í þætti BBC, Panorama árið 2015 .

Í þættinum kom fram í máli Paul Hopkins, sem starfaði fyrir BAT, í Keníu í 13 ár að hann hafi borgað mútur í kjölfar þess að honum var tjáð að það væri eðlilegur fylgifiskur þess að stunda viðskipti í Afríku. Mútugreiðslurnar voru að hans sögn ætlaðar til þess að reyna að hafa áhrif á löggjöf er varðaði tóbaksframleiðslu á svæðinu. Greiðslurnar fengu bæði stjórnmálamenn og embættismenn í Keníu.

Efnahagsbrotadeildin hefur staðfest það að rannsókn á málinu standi nú yfir. Sérstakir ytri ráðgjafar rannsaka málið fyrir hönd BAT.

Gengi bréfa félagsins lækkaði um nálega 4% í fyrstu viðskiptum í morgun. Þó snerist þróunin við seinni hluta dags og hafa þau nú hækkað um 2% það sem af er degi. Upp á síðkastið hefur hlutabréfaverð félagsins lækkað umtalsvert eða um 10% frá því að matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna greindi frá því að takmark yrði sett á magn nikótíns í tóbaksvörum í Bandaríkjunum.