Ítalskur saksóknari rannsakar nú Deutsche Bank fyrir mögulega markaðsmisnotkun varðandi sölu ítalskra ríkisskuldabréfa sem seld voru fyrir fimm árum síðan. Söluverð skuldabréfanna nam 8 milljörðum Bandaríkjadala eða 968 milljörðum íslenskra króna. Reuters fjallar um þetta.

Deutsche seldi skuldabréfin árið 2011 skömmu áður en skuldakrísa olli falli ríkisstjórnar Silvio Berlusconi, sem þá var forsætisráðherra en sagði svo af sér. Snemma árið 2011 sendi Deutsche frá sér minnisnótu þess efnis að óþarfi væri að hafa áhyggjur af skuldastöðu ítalska ríkisins - en seldi svo 90% skuldabréfa sinna.

Fimm fyrrverandi bankastjórar og framkvæmdastjórar innan Deutsche Bank sæta rannsókn vegna málsins. Deutsche segist aðstoða yfirvöld á Ítalíu að fullu við rannsókn málsins, en að þegar hefði bankinn gefið ítalska fjármálaeftirlitinu Consob upplýsingar um málið árið 2011.