Lögmaður Deutsche Fischfang Union (DFFU), félags útgerðarfyrirtækisins Samherja í Þýskalandi, fékk staðfestingu á því 30. janúar síðastliðinn að félagið tengist ekki á nokkur hátt þeim málum sem Seðlabankinn er með til rannsóknar. Lögmaðurinn óskaði eftir því með bréfi til Seðlabankans í september í fyrra. Félaginu hafði ekki verið tilkynnt að það sætti rannsókn þótt gögn í eigu þess hafi verið á meðal þeirra sem Seðlabankinn tók í húsleit á skrifstofum Samherja á Akureyri og í Reykjavík í lok mars í fyrra vegna gruns um brot á gjaldeyrislögum.

Í Morgunblaðinu í dag er haft upp úr svarbréfi sem lögmaður DFFU fékk frá Seðlabankanum að samkvæmt stjórnsýslulögum beri að láta fyrirtæki vita séu þau til rannsóknar. Það hafi Seðlabankinn ekki gert í tilviki DFFU þar sem félagið sæti ekki rannsókn af hálfu bankans.

Haraldur Grétarsson, framkvæmdastjóri DFFU, segir í samtali við blaðið að þess verði krafist að Seðlabankinn skili án tafar öllum þeim gögnum fyrirtækisins sem bankinn tók við húsleitirnar í fyrravor.