Bandaríska umferðaöryggisstofnunin (e.  National Highway Traffic Safety Administration) hefur hafið rannsókn á ástæðum þess að eldur kviknaði nýverið í þremur rafbílum af gerðinni Tesla Model S. Bandaríska fréttastofan CNN fjallar um málið og hefur eftir Elon Musk, forstjóra og stofnanda Tesla Motors, að þrátt fyrir óhöppin hafi enginn slasast né látist í slysunum. Þá hefur hann bent á að eldur kvikni mun oftar í venjulegum fólksbílum sem knúnir eru af eldsneyti. Hann telur af þeim sökum enga ástæðu til að innkalla rafbíla af þessari gerð.

CNN segir 19.000 Tesla bíla á götunum og merki það í grófum dráttum að eldur hafi kviknað í einum af hverjum 6.300 bílum. Til samanburðar brann einn af hverjum 1.450 bílum sem knúnir eru af eldsneyti. Þrjú hundruð manns hafa látist í brununum og 800 slasast.