Fjármálaeftirlitið hefur verklag við hlutafjárútboð enn til athugunar og segir Sigurður Valgeirsson, upplýsingafulltrúi embættisins, litlu við það að bæta að svo stöddu. Þann 14. maí síðastliðinn birtist frétt á vef eftirlitsins þar sem Fjármálaeftirlitið vakti athygli fjárfesta á því regluverki sem gildir um hlutafjárútboð.

Fréttin birtist í kjölfar umfjöllunar um að fjárfestar gerðu hærri tilboð í hlutafjárútboðum en þeir gætu staðið við þar sem þeir byggjust við umtalsverðri skerðingu. Þessi umræða spratt upp í tengslum við mikla umframeftirspurn í hlutafjárútboðum bæði VÍS og TM. Í frétt FME kom fram að sú hegðun fjárfesta að leggja inn hærri tilboð en þeir gætu staðið við gæti talist markaðsmisnotkun enda væri með því verið að gefa eftirspurn fjármálagerninga ranglega eða misvísandi til kynna.