Undirritaður hefur verið samstarfssamningur milli Veiðimálastofnunar og BioPol ehf., sjávarlíftækniseturs á Skagaströnd, um rannsóknir á sviði sjávarlíffræði, fiskavistfræði, auðlindanýtingar, sjávarlíftækni og tengdra sviða.


Í fréttatilkynningu segir að Veiðimálastofnun og BioPol Sjávarlíftæknisetur á Skagaströnd hafi ákveðið að leggja saman krafta sína hvað varðar rannsóknir tengdar hafinu, auðlindum sjávar og ósasvæðum fallvatna. Samstarfssamningur því til staðfestingar hefur nú verið undirritaður.

Meginmarkmið samningsins er að efla með rannsóknasamstarfi, þekkingu og tækniþróun á sviði sjávarlíftækni, sjávarlíffræði, fiskavistfræði. Þá ætla samstarfsaðilarnir að skoða auðlindanýtingu bæði ferskvatns og sjávarstofna. Sérstaklega er í því ljósi horft til rannsókna á strand- og ósasvæðum við Húnaflóa og í Skagafirði.

BioPol hefur áður gert samstarfssamninga við meðal annars The Scottish Association for Marine Science og Háskólann á Akureyri. Í þeim samningum hefur verið lögð áhersla á lífríki hafsins, segir í tilkynningunni.